- Auglýsing -
- Auglýsing -

Haldið til hafs með uppgerðan reiða og nýsaumuð segl

Leikmenn landsliða Íslands og Færeyja þakka fyrir leikinn. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -
  • Með eftirvæntingu lagði ég leið mína í Laugardalshöll á föstudagskvöld og aftur á laugardaginn til þess að fylgjast með leikjum landsliða Íslands og Færeyja í handknattleik karla.
  • Nýr skipstjóri og stýrimaður voru teknir við stjórn íslensku skútunnar og þar af leiðandi talsverðar væntingar til að róið yrði á ný mið með uppgerðan reiða og nýsaumuð segl. Nýjum herrum fylgja jú alltaf nýir siðir og allt þótt vitað væri að þeir ætluðu sér ekki að gera tilraun til þess að finna upp kompásinn.
Áhorfendur fjölmenntu í Laugardalshöll á báða leiki Íslands og Færeyja. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
  • Skemmst er frá að segja að sjá mátti handbragð nýs landsliðsþjálfara Snorra Stein Guðjónssonar þótt ekki hafi gefist langur tími til þess búa landsliðið undir þær breytingar sem hann vill gera á kúrsinum. Hraðinn var meiri en áður í fyrri leiknum en gleymum því þó ekki að fyrrverandi landsliðsþjálfari vildi líka leika hratt þótt e.t.v. hafi hugmyndir hans verið aðrar en eftirmannsins.
  • Gaman var einnig að sjá Hauk Þrastarson leika sem þroskaðri leikmaður af fullum krafti á ný með landsliðinu eftir langa fjarveru.
  • Fyrri leikurinn var dæmi um hvað getur gerst þegar hugmyndir landsliðsþjálfarans verða að veruleika. Varnarleikurinn gekk afar vel upp, ekki síst í síðari hálfleik auk þess sem Viktor Gísli Hallgrímsson var frábær í markinu. Í kjölfarið fylgdi mjög hraður leikur með skemmtilegum leikkerfum eða mörkum eftir hröð upphlaup. Íslenska liðið hljóp yfir það færeyska.
Viktor Gísli Hallgrímsson markvörður átti stóran þátt í báðum sigrunum. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
  • Í síðari leiknum tókst ekki eins vel og raun má teljast lán að íslenska landsliðinu tókst að vinna. Satt að segja leist mér ekki vel á blikuna stundarfjórðungi fyrir leikslok þegar Færeyingar voru komnir tveimur mörkum yfir, 23:21, og virtust til alls líklegir. Eftir talsverðan barning tókst að kría út sigur. Viktor Gísli varði nokkur góð skot á síðustu sekúndum og sóknarleikurinn skilaði mörkum í kjölfarið.
Frændurnir Óli Mittún og Elías Ellefsen á Skipagøtu fylgjast með skipunum Peter Bredsdorff landsliðsþjálfara í leikhléi. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
  • Færeyingum tókst að draga svo niður í hraða leiksins svo úr varð takmörkuð skemmtun. Íslenska landsliðið stóð í vörn tvo þriðju leiktímans. Vart er hægt að hugsa sér ólíkari landslið um þessar mundir þegar kemur að hugmyndafræði og leikskipulagi en það íslenska og færeyska.
  • Færeyingar nálguðust það sem Norður Makedóníumenn buðu upp á mót eftir mót fyrir nokkrum árum með Kiril Lazarov og Stojanche Stoilov í aðalhlutverkum og heljarmennið Borko Ristovski markvörð á sprettinum milli marksins og varamannabekksins. Sennilega hefur enginn markvörður í sögunni hlaupið jafn mikið í landsleikjum og Ristovski. Hann hætti nýverið keppni og lætur móðann mása utan vallar.
Arnar Freyr Arnarsson freistar þess að stöðva Elias Ellefsen á Skipagøtu. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
  • Reyndar er með ólíkindum að taka þátt í tveimur vináttuleikjum skömmu fyrir stórmót og leika sjö á sex nánast í 120 mínútur. Svo sannarlega er Elias Ellefsen á Skipagøtu, sem gekk bölvandi til búningsklefa í hálfleik á laugardaginn, snjall og útsjónasamur með boltann. Hann stóð einbeittur fyrir framan varnarmennina sem óttast hans glögga auga, stórbrotnar sendingar eða snjalla skottækni. Ég vona innilega að Færeyingar geti boðið upp á fleira en sjö á sex þegar á EM verður komið. Það getur verið gott að eiga fleiri en einn ás upp í erminni.
Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari fer yfir málin. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
  • Snorri Steinn var með alls 18 leikmenn á skýrslu í leikjunum tveimur. Það er sá fjöldi sem hann tekur með sér til München. Víst er að einhver eða einhverjir af þessum 18 leikmönnum verða að bíta í súra eplið og sitja eftir heima, ekki síst ef Gísli Þorgeir Kristjánsson verður klár í slaginn eins og vonir standa til. Snorri Steinn og Arnór Atlason aðstoðarþjálfari eiga örugglega eftir að velta mjög vöngum áður þeir velja EM-hópinn.
  • Fleiri leikmenn banka eflaust á dyr landsliðsþjálfarans þótt þeir hafi ekki verið um helgina. Má þar m.a. nefna Svein Jóhannsson vegna þess að meiri breidd virðist sem fyrr vanta í línuspilið og ekki úr vegi að skoða fleiri möguleika, sé þess kostur.
  • Næst kemur íslenska landsliðið saman á öðrum degi jóla og hefst handa við undirbúning fyrir EM með 18 til 20 leikmönnum. Unnið verður hratt og markvisst. Fyrsti leikur EM verður 12. janúar við Serba sem hafa verið að þreifa sig áfram með sjö manna sóknarleik. Áður en EM hefst gefst vonandi tækifæri í tveimur leikjum gegn Austurríki ytra 6. og 8. janúar til að búa sig undir hefðbundnari handknattleik.
Einar Þorsteinn Ólafsson og Arnar Freyr Arnarsson tuska til línumann færeyska landsliðsins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
  • Breytingar þjálfaranna eiga eftir að skila sér jafnt og þétt í næstu verkefnum. EM verður það fyrsta. Síðan tekur vonandi við forkeppni Ólympíuleikanna í mars, umspilsleikir HM næsta vor. Ef draumarnir rætast verða Ólympíuleikar næst sumar, undankeppni EM haustið 2024 og vonandi HM að 14 mánuðum liðnum.
  • Snorri Steinn bylti leik Vals á þeim sex árum sem hann var þjálfari. Breytingarnar áttu sér ekki stað yfir nótt. Þeir sem bíða eftir breytingum leik á okkar stórgóða landsliði verða að sýna þolinmæði. Um leið er ljóst að sumt sem reynt verður mun heppnast, annað ekki, eins og gengur.

Ívar Benediktsson – [email protected]

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -