Handknattleiksdeild HK og Halldór Jóhann hafa framlengt samning sinn til ársins 2028. Með samningnum er tryggt áframhaldandi samstarf næstu ár, sem félagið bindur miklar vonir við, segir í tilkynningu.
Halldór Jóhann, sem er einn af reyndari þjálfurum Olísdeildarinnar, tók við þjálfun karlaliðs HK sumarið 2024 eftir að hafa þjálfað í Danmörku um tveggja ára skeið. Einnig hefur Halldór Jóhann m.a. þjálfað Fram, FH og Selfoss auk yngri landsliða Íslands í karlaflokki.
„Mikil ánægja ríkir innan HK með störf Halldórs, bæði hvað varðar fagleg vinnubrögð og uppbyggingu innan deildarinnar. Halldór hefur lagt mikla áherslu á metnaðarfulla nálgun, skýra stefnu og jákvæðan anda, sem hefur skilað sér í framþróun liðsins. Framlengingin er mikilvægt skref í áframhaldandi þróun deildarinnar og er full trú á að Halldór muni áfram gegna lykilhlutverki í vegferð liðsins á komandi árum,“ segir í tilkynningu HK í kvöld.



