ÍBV varð bikarmeistari í fjórða sinn í sögunni í dag með sigri á Val í frábærum úrslitaleik Poweradebikarsins í Laugardalshöll, 31:29, eftir að hafa verið marki undir eftir fyrri hálfleik, 14:13. Nítján ár eru liðin síðan að ÍBV vann bikarkeppnina síðast og því var hungur leikmanna liðsins mikið.
Sóknarleikur ÍBV var frábær frá upphafi til enda, ekki síst í síðari hálfleik þegar Hrafnhildur Hanna Þrastadóttir og Birna Berg Haraldsdóttir fóru á kostum. Að sama skapi var varnarleikur Vals ekki sem bestur og markvarslan þar af leiðandi engin.
ÍBV varð fyrir áfalli eftir um 20 mínútur. Marta Wawrzykowska, markverði var þá vísað af leikvelli fyrir litlar sakir. Brottrekstur hennar hefði getað haft mikil áhrif á leikinn. Hann varð hinsvegar til þess að ÍBV-liðið þjappaði sér enn betur saman. Ólöf Maren Bjarnadóttir tók stöðuna í markinu og gerði vel þrátt fyrir að vera nýlega komin á kreik aftur eftir barnsburð.
ÍBV-liðið var heilt yfir sterkara og verðskuldaði svo sannarlega sigurinn. Stuðningsmenn fjölmenntu á leikinn og héldu uppi stanlausu fjöri frá fyrstu mínútu og langt fram yfir þá síðustu.
Mikilvægasti leikmaður úrslitaleiksins var valin Hrafnhildur Hanna Þrastarsdóttir, ÍBV.
Mörk ÍBV: Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 12, Birna Berg Haraldsdóttir 7, Sunna Jónsdóttir 6, Elísa Elíasdóttir 4, Harpa Valey Gylfadóttir 2.
Varin skot: Ólöf Maren Bjarnadóttir 7, 28% – Marta Wawrzykowska 4, 26,7%.
Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 11/4, Mariam Eradze 5, Elín Rósa Magnúsdóttir 4, Thea Imani Sturludóttir 2, Sara Dögg Hjaltadóttir 2, Sigríður Hauksdóttir 2, Hildigunnur Einarsdóttir 1, Hildur Björnsdóttir 1, Auður Ester Gestsdóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 5, Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 3.
Handbolti.is var í Laugardalshöll og fylgist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.