Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar hennar í BSV Sachsen Zwickau töpuðu með átta marka mun í heimsókn til Oldenburg í gær, 33:25, í þýsku 1. deildinni í handknattleik. BSV Sachsen Zwickau var marki undir í hálfleik, 11:10. Hamur rann á markvörð Oldenburg í síðari hálfleik sem var megin ástæðan fyrir að leiðir liðanna skildu. Einnig brást samherjum Díönu Daggar bogalistin í þremur vítaköstum.
Díana Dögg átti afar góðan leik. Varnarmenn Oldenburg gengu hressilega út á móti Eyjakonunni. Hún skoraði tvö mörk átti sex stoðsendingar, skapaði átta færi og stal boltanum einu sinni auk þess að vinna ruðning og andstæðing af leikvelli.
Nærri umspilssæti
Þegar BSV Sachsen Zwickau á fjóra leiki eftir situr liðið í 11. sæti af 14 liðum með 12 stig, einu stigi fyrir ofan 13. sætið en liðið sem hafnar í því tekur þátt í umspili um keppnisrétt í 1. deild á næsta keppnistímabili. BSV Sachsen Zwickau hafnaði í næst neðsta sæti á síðustu leiktíð en vann umspilsleikina og hélt sæti sínu í deildinni.
Wailblingen er lang neðst í 14. sæti með tvö stig og er fyrir löngu fallið í 2. deild.
Sport-Union Neckarsulm er í næst neðsta sæti með 11 stig og tapaði í gær fyrir Thüringer, 30:22. Halle-Neustadt er einnig með 11 stig í 12. sæti. Bad Wildungen situr í 10. sæti með 14 stig. Halle-Neustadt og Bad Wildungen mætast í dag.
Sandra á leik í dag
Sandra Erlingsdóttir og samherjar hennar í TuS Metzingen sækja Buxtehuder SV heim í dag klukkan. Liðin eru á líku róli í deildinni, í sjötta og sjöunda sæti.