ÍR-ingar unnu sinn fyrsta leik í Olísdeild karla á þessari leiktíð er þeir lögðu Þórsara í Skógarseli, 34:31. Farið var rækilega yfir leikinn og frammistöðu ÍR-liðsins í honum í Handboltahöllinni síðasta mánudag.
Ásbjörn Friðriksson annar sérfræðingur þáttarins að þessu sinni sagðist vera ánægður fyrir hönd ÍR, ekki bara með sigurinn heldur hversu sterk byrjun liðsins hafi verið. Oft í vetur hefur ÍR lent töluvert undir snemma leikja og verið „að moka sig upp úr holunni“ til leiksloka, eins og Ásbjörn orðaði það.
Varnarleikur ÍR-inga var mun betri. „Það var fullorðins varnarleikur,“ sagði Hörður Magnússon umsjónarmaður Handboltahallarinnar. Ásbjörn tók undir það og sagði að margt af því sem skort hafi í varnarleik ÍR á keppnistímabilinu hafi loksins verið bætt að þessu sinni.
Ítarlega var farið yfir leik ÍR, jafnt í vörn sem sókn, í myndskeiðinu hér fyrir ofan.
ÍR-ingar sækja Selfyssinga heim í upphafsleik 13. umferðar Olísdeildar karla í handknattleik klukkan 19 í kvöld. Liðin eru í tveimur neðstu sætum deildarinnar.




