Neðsta lið Olísdeildar karla, ÍR, náði að velgja leikmönnum Aftureldingar undir uggum í viðureign liðanna í Olísdeild karla í handknattleik í gærkvöld. ÍR var með yfirhöndina lengi vel. Aftureldingarmenn skoruðu fjögur mörk í röð frá og með 53. mínútu og náðu fjögurra marka forskoti sem tryggði þeim sigurinn og annað sæti deildarinnar.
Vendipunktur leiksins var, að mati sérfræðinga Handboltahallarinnar, þegar Baldri Fritz Bjarnasyni var vikið af leikvelli eftir leikaraskap að mati Antons Gylfa Pálssonar og Jónasar Elíassonar dómara, rúmum sjö mínútum fyrir leikslok.
Einnig vakti ungur leikmaður Aftureldingar, Andri Freyr Friðriksson, athygli. Hann skoraði sjö mörk í átta skotum í sínum öðrum leik með Aftureldingu í Olísdeildinni. Hver er Andri Freyr, spurði Hörður Magnússon umsjónarmaður Handboltahallarinnar. Einar Ingi Hrafnsson, sérfræðingur Handboltahallarinnar og framkvæmdastjóri Aftureldingar, var með svör á reiðum höndum.
Samantekt Handboltahallarinnar frá leik Aftureldingar og ÍR er í myndskeiði hér fyrir ofan.



