Aðeins eru þrjú ár þangað til Ólympíuleikarnir fara fram í Los Angeles í Bandaríkjunum. Undirbúningur fyrir leikana er hafinn fyrir nokkrum árum. Bandaríkjamenn munu tjalda öllu til að vanda enda hafa leikarnir sem haldnir hafa verið þar í landi á undanförnum áratugum þótt vera hinir glæsilegustu. Ekki síst leikarnir sem fram fóru í Los Angeles 1984. Þeir þóttu um margt slá nýjan tón í umgjörð og framkvæmd Ólympíuleikanna.
30 km frá Los Angeles
Handknattleikur verður að vanda á dagskrá Ólympíuleikanna í Bandaríkjunum þótt íþróttin sé ekki ýkja útbreidd í landinu. Ákveðið hefur verið að handknattleikskeppnin fari fram í Long Beach Arena við Kyrrahafið, um 30 km akstursfjarlægð frá miðborg Los Angeles.
Hefur iðað af lífi í rúm 60 ár
Long Beach Arena var vígð 1962, og var lengi vel einn af þekktustu samkomustöðum íþrótta og og skemmtana í Kaliforníu. Long Beach Arena hefur iðað af lífi í takt goðsagnakenndra tónleika, en einnig stórra íþróttaviðburða. Meðal annars var Elvis Presley með þrenna tónleika í Long Beach Arena, 1972 og aftur 1976, ári áður en hann féll frá langt um aldurfram.
Á Ólympíuleikunum 1984 var blak leikið í Long Beach Arena.
Kennileiti Long Beach
Með hringlaga lögun og framhlið þakta hinu stórbrotna vegglistaverki Whaling Wall eftir Wyland, er byggingin fyrir löngu orðin að kennileiti í arkitektúr Long Beach.
Long Beach Arena rúmar 13.500 manns í sæti eftir gagngerar endurbætur, ekki árið 2013. Fyrir dyrum standa fleiri lagfæringar til þess að aðlaga Long Beach Arena að handknattleik.
Sjö greinar á sama svæði
Val Long Beach Arena sem vettvang fyrir handknattleik er ekki tilviljun. Borgarhlutinn verður ein af helstu miðstöðvum Ólympíuleikanna, með ekki færri en sjö íþróttagreinar skipulagðar á afmörkuðu svæði við ströndina. Nálægð við aðrar íþróttagreinar og fallegt umhverfi. Flest er sagt vera til staðar til að gera Long Beach að aðlaðandi vettvangi fyrir íþróttafólk og áhorfendur.
Keppnisstaður seldir í fyrsta sinn
Í fyrsta skipti í sögu Ólympíuleikanna mega skipuleggjendur Ólympíuleikanna í Los Angeles 2028 selja nafnarétt á keppnisstöðum. Ný forysta Alþjóða Ólympíunefndarinnar, sem á leikana, hefur ákveðið að gera þessa viðmiklu breytingu. Komið er til móts við óskir bandarískra skipuleggjenda leikana sem vafalaust munu freista þess að selja allt steini léttara sem snýr að Ólympíuleikunum.
Særinn í sífellu þylur
Árið 2028 mun handknattleikur því snúa aftur í sögulegt umhverfi, „þar sem særinn í sífellu þylur sömu morgunbæn,“ eins og Þórbergur Þórðarson orðaði svo snilldarlega. Long Beach Arena býr sig undir að skrifa nýjan kafla, og að þessu sinni mun handknattleiksheimurinn leika aðalhlutverkið, segir í fregnum vestra.