- Auglýsing -
- Auglýsing -

Handboltavefur fer í loftið

55 ár eru liðin síðan Laugardalshöll var tekin í notkun. Hún er fyrir löngu hætt að uppfylla kröfur sem gerðar eru til alþjóðlegra kappleika í handknattleik og körfuknattleik. Mynd/HSÍ Mynd/HSÍ
- Auglýsing -
  • Nýr íslenskur vefur sem eingöngu fjallar um handknattleik er staðreynd. Handbolti.is hefur göngu sína í dag í undir verndarvæng  Snasabrúnar ehf., félags í eigu Ívars Benediktssonar, blaðamanns, og Kristínar B. Reynisdóttur, sjúkraþjálfara. Eftir snarpan undirbúning síðustu vikur hafa nógu margir hnútar verið hnýttir til að mögulegt sé að draga tjöldin frá sviðinu. 
  • Handboltavef hefur marga þótt vanta í fjölbreytta íslenska flóru fjölmiðla. Hugmyndin sem slíkt er ekki ný af nálinni. Áður hafa verið á sveimi hér á landi vefsíður sem hafa einbeitt sér að því að segja fréttir af þessari skemmtilegu íþrótt sem oft hefur sameinað þjóðina. Meira að segja var fyrir meira en áratug rekinn vefur undir þessu nafni, handbolti.is.  Sú útgáfa er ekkert tengd þeirri sem nú hefur verið ýtt úr vör, kæru lesendur. Aðeins lénið er það sama.

  • Þessum fjölmiðli er ætlað að fylgjast með og greina frá því sem efst er á baugi í handknattleik hér á landi, hvort sem um er ræða þá yngri eða eldri. Fátt sem snertir handknattleik hér á landi verður handbolta.is óviðkomandi. 
  • Auðvitað stendur handbolti.is handknattleiksfélögum og deildum opin auk þess sem hér verður vettvangur til skoðanaskipta fyrir þá sem vilja viðra skoðanir sínar.
  • Sjónum verður eftir föngum beint að landsliðum Íslands í öllum aldursflokkum og þeim fylgt eftir eins og kostur er hverju sinni.
  • Einnig hyggst handbolti.is fylgjast grannt með íslensku handknattleiksfólki og þjálfurum sem starfa á erlendri grund og halda góðu sambandi við hópinn. Til viðbótar verður sjónum beint að mörgu því sem er efst á baugi utanlands hverju sinni s.s. Evrópukeppni félagsliða og stórmótum landsliða burt séð frá því hvort íslensk félagslið og landslið verða í eldlínunni eða ekki.
  • Handbolti.is hefur að markmiði að auka umfjöllun og áhuga fyrir handknattleik hér á landi.

  • Eftir því sem vefnum, handbolti.is, vex fiskur um hrygg verða umsvif aukin eftir föngum. Einhverstaðar þarf hinsvegar að draga mörkin í byrjun. Þótt áhugi og vilji sé fyrir hendi þarf að gæta þess að reisa sér ekki hurðarás um öxl strax í upphafi.
  • Það von okkar að með útgáfunni verði komið til móts við fjölmargt áhugafólk um handknattleik hér á landi. Um leið er það ósk okkar að lesendur láti sig vefinn varða og að þeir hiki ekki við að vera í sambandi um hvaðeina sem þeim dettur í hug og hvort sem það tengist handknattleik beint eða efnistökum okkar. 

Með handboltakveðju, 

Ívar Benediktsson, ritstjóri, ivar@handbolti.is

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -