Keppni á Íslandsmótinu í handknattleik getur farið af stað á nýjan leik eftir 13. janúar ef framhald verður á fáum smitum næstu daga. Þetta kom fram í viðtali við Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherrra í hádegisfréttum Bylgjunnar í fyrir stundu.
Svandís sagði að meðal annarra tillagna sóttvarnarlæknis í nýju minnisblaði væri að íþróttir allra aldurshópa yrðu heimilaðar, það ætti jafnt við um æfingar sem keppni. Leikir verða að fara fram án áhorfenda. Afram verða æfingar að fara fram samkvæmt sóttvarnareglum og eins verður væntanlega strangar sóttvarareglur í kringum kappleiki.
Svandís tók skýrt fram að þessar tillögur og fleiri til afléttingar á sóttvörnum væri þeim skilyrðum háð að ástandið versnaði ekki hér á landi á næstu dögum.
Gangi þetta eftir verður hægt að flauta til leiks í Olís,- og Grill 66-deildum í handbolta þegar komið verður fram yfir miðjan mánuð. Ekkert hefur verið leikið í þessum deildum síðan í lok september og í öðrum frá byrjun október.
Til viðbótar þá mega ungmenni á aldrinum 16-19 ára loksins hefja æfingar á nýjan leik en þau hafa sætt æfingabanni mánuðum saman.