- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Handboltinn í Portúgal er skemmtilegur – Stiven líkar lífið hjá Benfica

Stiven Tobar Valencia kom skyndlega inn í landsliðið á endasprettinum á HM. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


„Ég get ekki kvartað yfir neinu. Ég kann mjög vel við mig í Lissabon og hjá félaginu,“ sagði Stiven Tobar Valencia landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Benfica í Portúgal þegar handbolti.is rætti við hann á dögunum en Stiven kom skyndilega inn í íslenska landsliðið á lokaspretti heimsmeistaramótsins í síðasta mánuði þegar Bjarki Már Elísson meiddist.

Stiven Tobar flutti til Lissabon og gekk til liðs við Benfica sumarið 2023 eftir að hafa átt afar góðu gengi að fagna með Val. Stiven segir tímabilið sem nú stendur yfir, og er u.þ.b. hálfnað vera betra en í fyrra. Samningur hans við Benfica rennur út í sumar og segist Stiven að til greina komi að halda áfram hjá félaginu.

Gengið betur í vetur

„Í fyrra voru margir nýir leikmenn, nýr þjálfari og fleiri starfsfólk voru að stíga sín fyrstu skref. Við þurftum tíma til þess að ná saman sem hefur tekist að mínu mati. Í vetur hefur okkur gengið mun betur en í fyrra. Til dæmis hefur okkur vegnað mjög vel í Evrópudeildinni og erum síðan rétt á eftir Sporting og Porto í deildinni heima í Portúgal. Við erum mjög þéttir,“ sagði Stiven Tobar sem viðurkennir að fyrsta árið á nýjum stað með öðrum liðsfélögum og þjálfara hafi verið erfitt.

Stiven Tobar að hita upp fyrir leikinn gegn Argentínu á HM. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Maður stóð svolítið einn

„Ég kom úr umhverfi hjá Val, má segja út lítilli fjölskyldu, þar sem mér hafði gengið vel. Leikið 60 mínútur í nær öllum leikjum. Svo kom maður til Benfica sem er risastórt félag þótt handboltinn sé ekki stór hjá félaginu. Maður stóð svolítið einn,“ sagði Stiven Tobar bætir við að það hafi verið mikil viðbrigði að koma sér fyrir hjá nýju félagi og þekkja engan.

Ég reikna með að fljótlega komi í ljós hvað ég geri. Ég veit af áhuga fleiri liða svo ég þarf aðeins að skoða betur hvað mér er fyrir bestu.

Mikil viðbrigði

„Mér beið ekki alveg það umhverfi sem ég reiknaði með. Að minnsta kosti voru viðbrigðin talsverð. Ég var ekki alltaf númer eitt í minni stöðu og fékk ekki leika í 60 mínútur. Þetta var mjög erfitt. Í vetur er ég kominn betur inn í hlutina og hef fengið meira traust frá þjálfaranum og fæ fleiri og lengri tækifæri í leikjum en í fyrra,“ sagði Stiven Tobar.

Fór úr axlarlið

Stiven Tobar fór úr hægri axlarlið síðasta vor og var frá keppni um tíma af þeirri ástæðu þegar leið nærri úrslitakeppninni í Portúgal. Auk þess missti hann af leikjum með landsliðinu í umspili fyrir HM. „Ég vann mig út úr þessum meiðslum enda um að ræða hverja aðra hindrun sem maður verður að komast yfir sem handboltamaður. Það getur alltaf eitthvað komið fyrir.“

Okkar leikur er mjög taktískur með ríka áherslu á varnarleik. Maður hefur lært margt nýtt og öðlast annað sjónarhorn á íþróttina

Þrír Íslendingar í deildinni

Segja má að kapphlaupið um titlana í Portúgal standi á milli þriggja félaga, Benfica og Sporting sem eru Lissabon-lið og Porto frá borginni í norðurhluta landsins. Svo skemmtilega vill til að íslenskir landsliðsmenn eru hjá öllum félögunum þremur. Auk Stivens Tobar leikur Orri Freyr Þorkelsson með Sporting og Þorsteinn Leó Gunnarsson gekk til liðs við Porto á síðasta sumri.

Skemmtilegur handbolti

„Þótt keppnin standi aðallega á milli Benfica, Sporting og Porto þá er deildin skemmtileg. Mikill hraði er í leikjum og lítið um skot fyrir utan þangað til Þorsteinn Leo mætti í deildina. Hanboltinn í Portúgal er skemmtilegur. Okkar leikur er mjög taktískur með ríka áherslu á varnarleik. Maður hefur lært margt nýtt og öðlast annað sjónarhorn á íþróttina.“

Stiven Tobar með Teiti Erni Einarssyni, Gísla Þorgeiri Kristjánssyni og Elvari Erni Jónssyni eftir síðast leik Íslands á HM 2025. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Kemur fljótlega í ljós

Samningur Stivens Tobar við Benfica rennur út í lok leiktíðar. Hann segist hafa verið í viðræðum um nýjan samning við félagið. „Ég reikna með að fljótlega komi í ljós hvað ég geri. Ég veit af áhuga fleiri liða svo ég þarf aðeins að skoða betur hvað mér er fyrir bestu. Það getur vel verið að ég haldi áfram hjá Benfica því mér líður vel í Lissabon og hjá félaginu,“ segir Stiven Tobar Valencia leikmaður hjá Benfica í Portúgal.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -