Hlaðvarpsþátturinn Handboltinn okkar gaf út sinn 52. þátt í dag. Að þessu sinni var þátturinn í umsjón Jóa Lange og Gests Guðrúnarsonar. Í upphafi þáttar ræddu þeir hlutverk eftirlitsmanna á leikjum en það hafa komið upp atvik að undanförnu sem kalla á breytt verklag. Þeir félagar voru með ýmsar pælingar hvað það varðar.
Þá fóru þeir yfir leikina í 13. umferð í Olísdeild kvenna. Þar sem þeir lýstu yfir vonbrigðum sínum með framgöngu ÍBV í vetur en þeir áttu von á meiru frá þeim. Þeim finnst lítið skipulag á sóknarleik liðsins og hreinlega lýstu eftir Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur en það hefur ekki sést mikið til hennar í vetur.
Aðra sögu er að segja um lið Hauka en þeir félagar hafa verið gríðarlega ánægðir með frammistöðu þess í vetur þar sem að liðið hefur sýnt framfarir í hverjum leik og þeir félagar gengu svo langt að útnefna Gunnar Gunnarsson þjálfara Hauka sem þjálfara ársins í Olísdeild kvenna.
Að endingu fóru þeir yfir næstu umferð en þar ber náttúrulega hæst leikur Fram og KA/Þórs sem er úrslitaleikur um deildarmeistaratitilinn og strákarnir eiga von á hörkuleik þar og spá því að úrslitin ráðist á lokasekúndum leiksins. Þeir vonast til þess að Fram nái að koma sem flestum áhorfendum inní Safamýrina og vona að forráðarmenn félagsins séu byrjaði á að skipuleggja það.
Að lokum völdu þeir hvaða leikmenn koma til greina sem BK leikmaður 13.umferðar. Þær sem eru tilnefndar að þessu sinni eru, Helena Rut Örvarsdóttir (Stjörnunni), Berta Rut Harðardóttir (Haukum), Jónína Hlín Hansdóttir (Fram) og Aldís Ásta Heimisdóttir (KA/Þór).
Hægt er að hlusta á þáttinn með því að smella á örinu neðst í hægra horninu hér fyrir neðan.