„Hann ákvað að hætta þremur dögum fyrir fyrsta leik í deildinni,“ sagði Sérfræðingurinn, öðru nafni, Arnar Daði Arnarsson umsjónarmaður Handkastsins í nýjasta þættinum sem fór í loftið í kvöld. Arnar Daði var þarna að ræða um örvhentu skyttuna Sölva Svavarsson sem leikið hefur með Selfoss í Olísdeildinni.
Arnar Daði hafði leitað svara á vangaveltum sem komu upp hjá hjá honum, Tedda Ponsa og Styrmi í þætti þeirra á laugardaginn um hvað orðið hafi um Sölva. Hans var sárt saknað í fyrsta leik Selfossliðsins í Olísdeildinni gegn KA. Selfossliðið er án örvhentrar skyttu.
Bætti met Bergs Elís
„Hann [Sölvi innsk. blm] sló með þessu met Bergs Elís sem hætti með Gróttu þremur vikum fyrir fyrsta leik. Sölvi hætti þremur dögum fyrir mót,“ sagði Arnar Daði ennfremur. „Þetta er hræðilegt fyrir Selfyssinga.“
Ósögð saga
„Hann hefur varla vaknað þremur dögum fyrir mót og sagt við sig, heyrðu ég ætla að hætta í handbolta,“ sagði Teddi sem eins og fleiri klóra sig í kollinum yfir ákvörðun Sölva. „Það er einhver saga ósögð í þessu máli,“ bætti sérfræðingurinn við.
Margt gómsætt
Umræðan um Sölva hefst eftir ca 20 mínútur og 40 sekúndur í nýjasta þætti Handkastsins sem kom út í kvöld. Þar er einnig rætt um frammistöðu FH-inga og Arons Pálmarssonar gegn Val í gær.
Einnig eru í þættinum símaviðtöl við Svein Andra Sveinsson og Arnar Frey Arnarsson og margt fleira sem kætir hvers manns geð enda umræðan hispurslaus að vanda hjá þremenningunum.