Handknattleikskonan Harpa María Friðgeirsdóttir leikur ekki með Fram í Olísdeildinni í vetur. Hún er flutti til Danmerkur til mastersnáms í iðnaðarverkfræði við DTU-háskólann í Lyngby á Sjálandi.
Harpa María leggur handknattleiksskóna síður en svo á hilluna þrátt fyrir flutninga. Hún hefur gengið til liðs við TMS Ringsted og hafa félagaskiptin gengið í gegn. Fyrsti leikur Hörpu Maríu með TMS Ringsted verður á sunnudaginn gegn SønderjyskE í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar.
TMS Ringsted leikur í vetur í næst efstu deild. Upphafsleikurinn í deildinni verður einnig á heimavelli og gegn Gudme HK frá Fjóni.
Harpa María leikur í vinstra horni auk þess að vera öflug hraðaupphlaupskona. Hún skoraði 77 mörk í 21 leik í Olísdeildinni á síðasta tímabil. Fyrir utan að vera sterk á handknattleiksvellinum þá hefur Harpa María orðið Íslandsmeistari í alpagreinum skíðaíþrótta.
Konur – helstu félagaskipti 2024