- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Harpa Valey skaut ÍBV á toppinn – Hafdís skellti í lás í Úlfarsárdal

Harpa Valey Gylfadóttir skoraði sigurmark ÍBV gegn Val. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Harpa Valey Gylfadóttir skoraði sigurmark ÍBV, 29:28, á síðustu sekúndu leiksins við Val í Vestmannaeyjum í dag þegar tvö efstu lið Olísdeildar kvenna áttust við í stórskemmtilegum og jöfnum leik.

Með sigrinum komst ÍBV í efsta sæti Olísdeildarinnar með 30 stig eftir 17 leiki. Valur er einnig með 30 stig en hefur lokið 18 viðureignum og stendur auk þess höllum fæti gagnvart ÍBV í innbyrðisleikjum liðanna á tímabilinu.

Þar með blasir deildarmeistaratitilinn við ÍBV haldi liðið rétt á spilunum í þeim fjórum leikjum sem eftir eru á tímabilinu.

Varði 26 skot – fimm vítaköst

Í hinni viðureign dagsins í Olísdeildinni vann Fram stórsigur á Haukum, 22:14, í Úlfarsárdal. Hafdís Renötudóttir fór nánast með himinskautum í marki Framliðsins. Hún varði 26 skot, þar af fimm vítaköst. Með Hafdísi í slíkum ham verður ekki við Fram-liðið ráðið.

Hafdís Renötudóttir, markvörður Fram. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson


Staðan í hálfleik var 11:7 fyrir Fram. Haukar byrjuðu illa og lentu undir, 4:0, en tókst að rétt sinn hlut aðeins. Í upphafi síðari hálfleiks var forskot Fram komið niður í eitt mark, 12:11, eftir rúmlega fimm mínútur. Þá sagði Hafdís markvörður, hingað og ekki lengra.

Vart mátti á milli sjá í Eyjum

Leikurinn i Vestmannaeyjum var stórskemmtilegur milli tveggja framúrskarandi liða og góður forsmekkur að úrslitakeppninni í vor. Jafnt var á flestum tölum, m.a. í hálfleik, 15:15. Liðunum tókst nokkrum sinnum að ná tveggja marka forskoti en lánaðist ekki að halda þeirri forystu til lengdar.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði 13 mörk fyrir ÍBV í dag. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson


Valur átti næst síðustu sókn leiksins og tók leikhlé þegar 40 sekúndur voru eftir í jafnri stöðu, 28:28. Sóknin sem fylgdi í kjölfar hlésins fór í handaskolum. ÍBV lagði á ráðin áður en síðasta sóknin hófst. Henni lauk með marki Hörpu Valeyjar í þann mund sem leiktíminn var úti.


Staðan í Olísdeild kvenna og næstu leikir.


ÍBV – Valur 29:28 (15:15).
Mörk ÍBV: Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 13/1, Sunna Jónsdóttir 9, Harpa Valey Gylfadóttir 2, Elísa Elíasdóttir 2, Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 1, Birna Berg Haraldsdóttir 1, Ásta Björt Júlíusdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 10, 26,3%.
Mörk Vals: Thea Imani Sturludóttir 10, Mariam Eradze 7, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 5, Hildigunnur Einarsdóttir 3, Sigríður Hauksdóttir 1, Lilja Ágústsdóttir 1, Hildur Björnsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 15, 34,1%.


Fram – Haukar 22:14 (11:7).
Mörk Fram: Steinunn Björnsdóttir 5, Perla Ruth Albertsdóttir 4/3, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Hekla Rún Ámundadótti 3, Kristrún Steinþórsdóttir 2, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 2, Tinna Valgerður Gísladóttir 1, Sara Katrín Gunnarsdóttir 1, Harpa María Friðgeirsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 26/5, 65%.
Mörk Hauka: Elín Klara Þorkelsdóttir 3, Ena Car 3, Ragnheiður Sveinsdóttir 2, Ragnheiður Ragnarsdóttir 2, Natasja Hammer 2, Gunnhildur Pétursdóttir 2/2.
Varin skot: Margrét Einarssdóttir 14, 38,9%.

Staðan í Olísdeild kvenna og næstu leikir.

Framundan er hlé á keppni í Olísdeild kvenna vegna landsleikja.

Handbolti.is fylgist með leikjunum í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -