Harpa Valey Gylfadóttir skoraði sigurmark ÍBV, 29:28, á síðustu sekúndu leiksins við Val í Vestmannaeyjum í dag þegar tvö efstu lið Olísdeildar kvenna áttust við í stórskemmtilegum og jöfnum leik.
Með sigrinum komst ÍBV í efsta sæti Olísdeildarinnar með 30 stig eftir 17 leiki. Valur er einnig með 30 stig en hefur lokið 18 viðureignum og stendur auk þess höllum fæti gagnvart ÍBV í innbyrðisleikjum liðanna á tímabilinu.
Þar með blasir deildarmeistaratitilinn við ÍBV haldi liðið rétt á spilunum í þeim fjórum leikjum sem eftir eru á tímabilinu.
Varði 26 skot – fimm vítaköst
Í hinni viðureign dagsins í Olísdeildinni vann Fram stórsigur á Haukum, 22:14, í Úlfarsárdal. Hafdís Renötudóttir fór nánast með himinskautum í marki Framliðsins. Hún varði 26 skot, þar af fimm vítaköst. Með Hafdísi í slíkum ham verður ekki við Fram-liðið ráðið.
Staðan í hálfleik var 11:7 fyrir Fram. Haukar byrjuðu illa og lentu undir, 4:0, en tókst að rétt sinn hlut aðeins. Í upphafi síðari hálfleiks var forskot Fram komið niður í eitt mark, 12:11, eftir rúmlega fimm mínútur. Þá sagði Hafdís markvörður, hingað og ekki lengra.
Vart mátti á milli sjá í Eyjum
Leikurinn i Vestmannaeyjum var stórskemmtilegur milli tveggja framúrskarandi liða og góður forsmekkur að úrslitakeppninni í vor. Jafnt var á flestum tölum, m.a. í hálfleik, 15:15. Liðunum tókst nokkrum sinnum að ná tveggja marka forskoti en lánaðist ekki að halda þeirri forystu til lengdar.
Valur átti næst síðustu sókn leiksins og tók leikhlé þegar 40 sekúndur voru eftir í jafnri stöðu, 28:28. Sóknin sem fylgdi í kjölfar hlésins fór í handaskolum. ÍBV lagði á ráðin áður en síðasta sóknin hófst. Henni lauk með marki Hörpu Valeyjar í þann mund sem leiktíminn var úti.
Staðan í Olísdeild kvenna og næstu leikir.
ÍBV – Valur 29:28 (15:15).
Mörk ÍBV: Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 13/1, Sunna Jónsdóttir 9, Harpa Valey Gylfadóttir 2, Elísa Elíasdóttir 2, Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 1, Birna Berg Haraldsdóttir 1, Ásta Björt Júlíusdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 10, 26,3%.
Mörk Vals: Thea Imani Sturludóttir 10, Mariam Eradze 7, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 5, Hildigunnur Einarsdóttir 3, Sigríður Hauksdóttir 1, Lilja Ágústsdóttir 1, Hildur Björnsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 15, 34,1%.
Fram – Haukar 22:14 (11:7).
Mörk Fram: Steinunn Björnsdóttir 5, Perla Ruth Albertsdóttir 4/3, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Hekla Rún Ámundadótti 3, Kristrún Steinþórsdóttir 2, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 2, Tinna Valgerður Gísladóttir 1, Sara Katrín Gunnarsdóttir 1, Harpa María Friðgeirsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 26/5, 65%.
Mörk Hauka: Elín Klara Þorkelsdóttir 3, Ena Car 3, Ragnheiður Sveinsdóttir 2, Ragnheiður Ragnarsdóttir 2, Natasja Hammer 2, Gunnhildur Pétursdóttir 2/2.
Varin skot: Margrét Einarssdóttir 14, 38,9%.
Staðan í Olísdeild kvenna og næstu leikir.
Framundan er hlé á keppni í Olísdeild kvenna vegna landsleikja.
Handbolti.is fylgist með leikjunum í dag.