- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Háspenna, lífshætta“ á Selfossi!

Núverandi keppnislið Selfoss í Olísdeildinni. Mynd/UMFSelfoss
- Auglýsing -

Það voru ákveðin tímamót í íslenskum handknattleik, þegar Bjarni Ófeigur Valdimarsson mætti til leiks í Búdapest, aðeins nokkrum klukkustundum fyrir leik gegn Svartfjallalandi. Hann var 26. leikmaðurinn sem Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari, kallaði á til að standa vaktina á Evrópukeppni landsliða í Ungverjalandi/Slóvakíu.

Bjarni Ófeigur, sem er sonur Valdimars Bjarnasonar frá Fjalli á Skeiðum, var þar með fimmti uppaldi leikmaður Selfoss sem er í EM-hópnum, en fyrir voru Elvar Örn Jónsson, Melsungen, Janus Daði Smárason, Göppingen, Teitur Örn Einarsson, Flensburg og Ómar Ingi Magnússon, Magdeburg. Þess má geta að Haukur Þrastarson, sem leikur með Vive Kielce í Póllandi, gat ekki tekið þátt í EM vegna meiðsla.


Bjarni Ófeigur, 23 ára, hefur ekki leikið A-landsleik, en fjölmarga leiki með yngri landsliðum. Hann byrjaði ungur að leika með Selfossi, en síðan lá leið hans til Vals, Gróttu og FH, áður en hann hélt til Svíþjóðar og gerðist leikmaður með Skövde.

Darri Aronsson á ættir að rekja austur á Selfoss. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Þá má geta þess að Darri Aronsson, Haukum, er sonur Arons Kristjánssonar, fyrrverandi landsliðsmanns, landsliðsþjálfara, og þjálfara Hauka og Huldu Bjarnadóttur, landsliðskonu. Bræður hennar eru landsliðsmennirnir Gústaf og Sigurjón, sem gerðu garðinn frægan með Selfossliðinu á árum áður.


Bjarki Már Elísson, Lemgo, sem lék um tíma með Selfossi á árunum innan við tvítugt, er tengdasonur bæjarins. Kona hans er Unnur Ósk Steinþórsdóttir.

Tengdasonur Selfoss, Bjarki Már Elísson. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

„Handboltajarðskjálfti“

Engin þessara stórefnilegu leikmanna voru fæddir þegar stóri „Handboltajarðskjálftinn“ fékk jörð til að skjálfa á Selfossi og Suðurlandi sumarið 1991. Það sem olli þessum mikla skjálfta, var frétt í Morgunblaðinu um að vinsælasti handknattleiksmaður landsins Sigurður Valur Sveinsson væri genginn til liðs við Selfoss frá Atlético Madrid á Spáni. Fréttin tendraði mikinn eld, sem blossaði upp í óstöðvandi áhuga á handknattleik á Suðurlandi, enda sjálfur „sirkusstjórinn“ gengin til liðs við hið unga lið Selfyssinga. Sigurður tók ákvörðunina aðeins nokkrum mínútum áður en lokað var fyrir félagaskipti.

Einar Þorvarðarson, landsliðsmarkvörður. Þjálfari Selfyssinga 1991-1994.


Það var Einar Þorvarðarson, landsliðsmarkvörður úr Val, sem tók við þjálfun Selfyssinga nokkru áður, sem fékk Sigga til liðs við sig. Áður höfðu nokkrir gamlir refir verið þjálfarar Selfoss; Gunnlaugur Hjálmarsson, ÍR, Steindór Gunnarsson, Val, Helgi Ragnarsson, FH, Guðmundur „Dadú“ Magnússon, FH og Björgvin Björgvinsson, Fram, sem kom Selfyssingum upp í 1. deild 1990.

„Ég tók við góðu búi hjá Björgvini; í liðinu voru margir ungir og efnilegir leikmenn. Þá var það mikið happdrætti að fá Sigurð, sem var leikmaðurinn sem okkur vantaði til að púsluspilið gengi upp.“ Einar fékk einnig hornamanninn Jón Þóri Jónsson frá Breiðabliki, en fyrir voru Einar Gunnar Sigurðsson, skytta, bræðurnir Sigurjón, línumaður og Gústaf Bjarnasynir, hornamaður, leikstjórnandinn Einar Guðmundsson, Stefán Halldórsson og Gísli Felix Bjarnason, markvörður.

Ómar Ingi Magnússon, íþróttamaður ársins 2021. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

„Sirkusstjóri“ á ferð

Markviss uppbygging Selfyssinga í kringum Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi skilaði árangri. Handbolta-akademía var stofnuð, þar sem skipulega var unnið með yngri flokka; ungum leikmönnum voru gefin tækifæri til að sinna sinni íþrótt betur.


Þá lyfti Sigurður Selfyssingum upp á nýjar hæðir og þeir höfðu eignast besta handknattleikslið Íslands keppnistímabilið 1991-1992. Leikgleði Sigurðar, sem var „sirkusstjórinn“ var mikil og smitaði út frá sér; hann náði að aðlagast liðinu á skömmum tíma og liðið Sigurði.

Sigurður Sveinsson var „sirkusstjóri“ á Selfossi.


Einar Guðmundsson, sem hafði leikið með sænska liðinu BK Söder – fyrir sunnan Stokkhólm, lék stórt hlutverk í Selfossliðinu sem barðist um Íslandsmeistaratitilinn í lokaeinvígi við FH 1992. Einar sem hafði verið aðalskytta liðsins, varð leikstjórnandi og maðurinn sem lék Einar Gunnar og Sigurð uppi, en þeir skutu mikið og fast; á 130 kílómetra hraða þegar best lét. Einar Guðmundsson var jafnvígur á báðar hendur, þannig að hann átti auðvelt að gefa knöttinn til hægri og vinstri og þá skoraði hann mörg mörk utan af velli bæði með vinstri og hægri hendi. Var illviðráðanlegur. Einar er pabbi Teits Arnar, sem er í EM-hópi Íslands í Búdapest.

Teitur Örn Einarsson, sonur Einars leikstjórnanda Selfossliðsins á tíunda áratugnum. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Selfoss var með góða hornamenn, Jón Þóri og Gústaf, þá var Sigurjón kvikur á línunni og markverðirnir Einar Þorvarðarson og Gísli Felix voru þéttir fyrir.


Stemningin var ekki aðeins á vellinum, heldur einnig á áhorfendapöllum; þar sem ekki færri en tólf trommuleikarar börðu húðirnar. Lætin í íþróttahúsinu bergmáluðu út um allan bæ, upp á Ingólfsfjall og suður að Eyrarbakka og Stokkseyri. Gárungarnir sögðu að það ætti að setja stórt skilti fyrir utan íþróttahúsið þegar leikir færu þar fram; sem á stæði: „Háspenna, lífshætta!“

Ölfursárbrú „gaf eftir!“

Fimm leikmenn komu á æfingar á Selfossi frá Reykjavík, fimm til sex sinnum í viku; Einar þjálfari, Sigurður, Gísli Felix, Jón Þórir og Sigurjón. Þeir ferðuðust saman í bíl og sagði Sigurður að það hafi verið hátt í tonn, sem var í bílnum. Það þurfti að gera við Ölfusárbrú í apríl og maí og loka henni um tíma þegar skipt var um brúargólfið. Sigurður sagði þá: „Það er greinilegt að brúin þoldi ekki allar þessa miklu æfingsókn okkar í vetur.“
Það var mikil spenna fyrir úrslitarimmu Selfoss og FH og spurning var um hvort að Íslandsbikarinn færi í fyrsta skipti út fyrir Stór-Reykjavíkursvæðið (Reykjavík, Hafnarfjörð).


FH-ingar voru ekki á þeim buxunum að sleppa Íslandsbikarnum og fögnuðu þeir sigri í einvíginu, 3:1, með sigri á Selfossi 6. maí, 28:25. Kristján Arason, þjálfari og leikmaður FH, fann ráð til að stöðva hið öfluga lið Selfyssinga. Hann lét taka Sigurð og Einar Gunnar úr umferð allt frá byrjun í tveimur síðustu leikjunum. Þá fór Guðjón Árnason, fyrirliði FH, á kostum á Selfossi í síðasta leiknum og skoraði 9 mörk.

„Mjaltavélin“

Selfyssingar léku fjölbreyttan sóknarleik, sem byggðist upp á hröðum leik, sem náði því besta út úr einstökum leikmönnum. Eins og mörg öflug og sögufræg lið, fékk Selfoss viðurnefni eins og Valur um árið, er liðið var kallað „Mulningsvélin“ fyrir sterkan varnarleik. Selfyssingar voru á léttari nótunum og fengu viðurnefnið „Mjaltavélin“ þar sem það vann vel úr gæðum og styrkleika sínum. Liðið var úr Flóanum, þar sem gerðir voru gæðaostar og vinsælar mjólkurvörur.

Gústaf með 21 mark gegn Kína

Heimamennirnir Einar Gunnar, Gústaf og Sigurjón áttu eftir að leika marga landsleiki næstu árin og Gústaf sýndi það, þegar hann var orðinn leikmaður Hauka, að hann kunni vel við sig í íþróttahúsinu á Selfossi. Þar setti hann markamet í leik gegn Kína 3. apríl 1997, er hann skoraði 21/2 mörk í sigurleik 31:22.

Janus Daði Smárason er einn landsliðsmannanna frá Selfoss. Sonur Guðrúnar Hergeirsdóttur, systur Þóris landsliðsþjálfara Noregs og Gríms sem var aðstoðarþjálfari karlaliðs Selfoss þegar liðið varð Íslandsmeistari 2019. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Hættu eða fóru á flakk

Selfyssingar náðu ekki að fylgja glæsilegum árangri 1992 eftir að leikmenn hættu og fóru á flakk. Gústaf fór til Hauka og síðan til Þýskalands, þar sem hann lék með Willstätt og Dankersen. Einar Gunnar fór til Aftureldingar 1996, þar sem Einar Þorvarðarsson var þjálfari.


Margir komu við sögu sem þjálfarar Selfoss og leikmenn, eins og Valdimar Grímsson 1995-1998, Sigurjón Bjarnason 1997-1999, Einar Guðmundsson 1999-2002, Sebastian Alexandersson 2003-2011, en hann vann mjög gott starf, sem átti eftir að skila sér.


Þá fóru Selfyssingar í atvinnumennsku; Þórir Ólafsson, Nettelstedt-Lübbecke í Þýskalandi, 2005-2011, og Vive Kielce í Póllandi, 2011-2014, en hann lék síðast með Selfossi 2016. Ragnar Jóhannsson lék með þýsku liðunum Hüttenberg 2015-2019 og Bergischer 2019-2020, en er nú hjá Selfossi.

Patti til Selfoss

Annar „Handboltajarðskjálfti“ átti sér stað á Suðurlandi 27. apríl 2017, þegar Handknattleiksdeild Selfoss sendi frá sér fréttatilkynningu seint um kvöld, þar sem tilkynnt var að Patrekur Jóhannesson, þá landsliðsþjálfari Austurríkis, hafi gert þriggja ára samning um þjálfun meistaraflokks karla og hann yrði einnig framkvæmdastjóri handboltaakademíu Fjölbrautaskóla Suðurlands, sem deildin rak.

Elvar Örn Jónsson var ásamt Hauki Þrastarsyni kjölfesta meistaraliðs Selfoss árið 2019. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Patrekur hóf starf sitt á fullum krafti og stefnan var sett á Íslandsbikarinn. Patrekur vann ótrúlegt þrekvirki á stuttum tíma með ungt lið, sem hann púslaði saman og Íslandsbikarinn kom til Selfoss eftir aðeins tvö ár undir stjórn hans, 2019. Selfyssingar tóku á móti bikarnum á heimavelli 22. maí 2019, þar sem þeir unnu rimmuna við Hauka, 3:1. Þeir fögnuðu 10 marka sigri í síðasta leiknum, 35:25 og tóku við bikarnum á þeim stað sem þeir misstu af honum í úrslitarimmu 27 árum áður, 1992. Lykilhlutverkin í liði Selfoss léku landsliðsmennirnir Elvar Örn Jónsson og Haukur Þrastarson.


Grímur Hergeirsson tók við starfi Patreks, sem hætti eftir að Íslandsbikarinn var kominn til Selfoss. Nú stjórnar Halldór Jóhann Sigfússon „Mjaltavélinni“.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -