Haukar tylltu sér á topp Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld með öruggum sigri á Stjörnunni, 30:26. Leikið var Ásvöllum. Haukar lögðu grunn að sigrinum í fyrri hálfleik þegar þeir höfðu talsverða yfirburði. Að 30 mínútunum loknum var forskot Hauka sex mörk, 17:11.
Haukar hafa 12 stig í efsta sæti og eru tveimur stigum fyrir ofan Aftureldingu og KA. Síðarnefnda liðið lagði Val í kvöld. Mosfellingar eiga ekki leik fyrr en á laugardaginn gegn ÍBV.
Stjarnan er í fimmta sæti með sjö stig og missti af tækifæri til þess að blanda sér í hóp allra efstu liða.
Eftir slakan fyrri hálfleik hertu Stjörnumenn upp hugann í síðari hálfleik. Það dugði skammt gegn Haukum sem hafa unnið sex viðureignir í röð í Olísdeildinni og virðast til alls líklegir með unga leikmenn í aðalhlutverkum, í vörn sem sókn.
Þráinn Orri Jónsson, leikmaður Hauka, fór meiddur af leikvelli í fyrri hálfleik. Óvíst er hvort meiðslin séu alvarlega.
Skarð var fyrir skildi hjá Stjörnunnni að vera án Hans Jörgens Ólafssonar.
Mörk Hauka: Freyr Aronsson 6/1, Birkir Snær Steinsson 5, Jón Ómar Gíslason 4/1, Andri Fannar Elísson 4, Össur Haraldsson 4, Skarphéðinn Ívar Einarsson 2, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 2, Hergeir Grímsson 1, Þráinn Orri Jónsson 1, Sigurður Snær Sigurjónsson 1.
Varin skot: Magnús Gunnar Karlsson 11, 29,7%.
Mörk Stjörnunnar: Daníel Karl Gunnarsson 6, Gauti Gunnarsson 5, Benedikt Marinó Herdísarson 5/1, Pétur Árni Hauksson 3, Ísak Logi Einarsson 3, Ólafur Brim Stefánsson 2, Starri Friðriksson 1/1, Jóel Bernburg 1.
Varin skot: Sigurður Dan Óskarsson 13/1, 33,3%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.