Handknattleiksmaðurin Stefán Rafn Sigurmannsson hefur samið við uppeldisfélag sitt Hauka. Frá þessu var greint á blaðamannfundi hjá handknattleiksdeild Hauka í Schenkerhöllinni á Ásvöllum fyrir stundu. Stefán Rafn skrifaði undir þriggja ára samning við Hafnarfjarðarliðið.
Þar með söðlar Stefán Rafn um eftir rúm átta ár í atvinnumennsku en síðstu þrjú ár var hann í herbúðum ungverska liðsins Pick Szeged. Samkomulagt náðist á milli Stefáns Rafns og Pick Szeged í ársbyrjun um að rifta samningnum eftir langvarandi meiðsli, svokallaðrar iljarfellsbólgu. Áður hafði Stefán Rafn leikið með Rhein-Neckar Löwen frá 2012 til 2016 og varð þýskur meistari með liðinu síðasta árið. Einnig var Stefán Rafn í sigurliði Löwen í EHF-bikarnum vorið 2013.
Sumarið 2016 gekk Stefán Rafn til liðs við Aalborg Håndbold og varð danskur meistari vorið 2017 með liðinu sem þá lék undir stjórn Arons Kristjánssonar sem Stefán Rafn hittir nú fyrir í stóli þjálfara Hauka.
Eftir árs veru hjá Aalborg keypti ungverska liðið Pick Szeged upp samning Stefáns Rafns við Aalborg. Með Pick Szeged naut Stefán Rafn velgengni og m.a. var hann í stóru hlutverki hjá liðinu þegar það var ungverskur meistari vorið 2018 eftir 11 ára bið. Vorið 2019 var Pick Szeged bikarmeistari og komst í átta lið úrslit Meistaradeildar Evrópu. Erfið meiðsli settu talsvert strik í reikninginn hjá Stefáni síðasta árið hjá félaginu.
Stefán Rafn, sem stendur á þrítugu, á að baki 72 A-landsleiki sem hann hefur skorað í 96 mörk. Síðast var Stefán Rafn með íslenska landsliðinu á stórmóti á HM 2019 sem fram fór í Þýskalandi og í Danmörku. Hann skoraði 13 mörk í átta leikjum liðsins.
„Það eru mikil gleðitíðindi fyrir okkur Haukamenn að fá Stefán aftur til baka til okkar. Stefán er uppalinn Haukamaður með sterkar taugar til félagsins. Hann hefur átt farsælan feril í atvinnumennskunni og leikið með sterkum liðum. Hann á eftir að nýtast liðinu mikið bæði innan vallar sem utan. Hann mun fá þann tíma sem hann þarf til að ná sér af þeim meiðslum sem hafa verið að angra hann í töluverðan tíma,“ segir Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, í fréttatilkynningu.