Haukar færðust upp að hlið Vals í Olísdeild karla í kvöld með sanngjörnum sigri á KA á Ásvöllum í 13. umferð deildarinnar, 38:31. Haukar hafa þar með unnið sér inn 16 stig í deildinni og sitja í fjórða til fimmta sæti eins og frændliðið frá Hlíðarenda. KA-menn voru alltaf á eftir í leiknum. Varnarleikurinn var slakur, ekki síst í fyrri hálfleik þegar Haukar skoruðu 24 mörk.
KA skoraði aðeins 16 mörk eftir að hafa verið vel með á markanótunum fyrstu 20 mínúturnar.
KA er fjórum stigum á eftir
Meðan Haukar eru í fjórða til fimmta sæti með 16 stig þá er KA í níunda sæti með níu stig, stigi a eftir Gróttu fjórum stigum á eftir Stjörnunni og ÍBV sem eru í sjötta og sjöunda sæti.
Mark í hverri sókn
Leikmenn beggja liða voru ekki mættir til þess að leika varnarleik, ef marka mátti upphafsmínúturnar. Mark var skorað nærri því í hverri sókn. Þegar Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari KA, tók fyrsta leikhléið í viðureigninni var staðan, 11:9, fyrir Hauka og liðlega 12 mínútur liðnar frá því að Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson flautuðu til leiks. Varnirnar voru hriplekar og markverðirnir þar af leiðandi ekki öfundsverðir af hlutverkum sínum.
Voru að flýta sér
Eftir liðlega fimmtán mínútur voru mörkin orðin 25, 14:11, fyrir Hauka þegar Össur Haraldsson skoraði eftir hraðaupphlaup. Engu var líkara en leikmenn beggja liða væru að flýta sér að leika leikinn, eins ótrúlega og það kann að hljóma.
Þegar fyrri hálfleikur var á enda var staðan 24:16 fyrir Hauka. Hafði þá bæði sóknar- og varnarleikur KA brugðist á síðustu 10 mínútum og heimamenn náð fyrir vikið góðu forskoti.
Haukar töpuðu þræðinum
Áfram örlaði lítið á varnarleik framan af síðari hálfleik. Svo virtist sem Haukar misstu aðeins einbeitinguna. Þeim tókst aðeins að skora þrjú mörk á fyrstu 11 mínútum síðari hálfleiks. Á sama tíma óx KA-mönnum ásmegin. Þeir skoruðu níu mörk og minnkuðu muninn í þrjú mörk, 27:23. Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka tók þá leikhlé og messaði yfir sínum mönnum.
Ánægður með sóknarleikinn fyrir utan kafla í síðari hálfleik
Gátu minnkað í tvö mörk
KA átti þess kost að minnka muninn í tvö mörk um 13 mínútum fyrir leikslok í stöðunni 29:26. Sigurður Snær Sigurjónsson sá til þess að KA-mönnum tókst það ekki. Hann stal boltanum og skoraði eftir hraðaupphlaup, 30:26. Önnur slök sókn KA-liðsins í kjölfarið varð til þess að Sigurður Snær kom Haukum fimm mörkum yfir í næstu sókn, 31:26, þegar 11 mínútur voru til leiksloka.
Langt ferðalag
Munurinn jókst á ný og Haukar uppskáru tvö verðskulduð stig nýkomnir heim úr 10000 km ferðalagi til og frá Aserbaísjan. Það var lítil huggun í því fyrir KA-menn að vinna síðari hálfleikinn með einu marki. Lítið var upp úr því að hafa.
Tveir meiddir
Arnór Snær Haddsson og Patrekur Stefánsson gátu ekki leikið með KA að þessu sinni vegna meiðsla.
Varnarleikurinn var ekki góður hjá okkur
Aron Rafn var ágætur
Þegar upp var staðið munaði einnig um að Aron Rafn Eðvarðsson tók rispur í marki Hauka og varði á köflum vel meðan dauft var yfir báðum markvörðum KA, lái þeim e.t.v. hver sem vill að standa vaktina fyrir aftan hripleka vörn.
Staðan í Olísdeildum og næstu leikir.
Mörk Hauka: Össur Haraldsson 7, Skarphéðinn Ívar Einarsson 7, Birkir Snær Steinsson 5, Freyr Aronsson 3, Andri Fannar Elísson 3/2, Þráinn Orri Jónsson 3, Geir Guðmundsson 3, Hergeir Grímsson 2, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 2, Sigurður Snær Sigurjónsson 2, Aron Rafn Eðvarðsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 15, 32,6%.
Mörk KA: Einar Birgir Stefánsson 9, Dagur Árni Heimisson 7, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 4, Daði Jónsson 3, Einar Rafn Eiðsson 3/1, Logi Gautason 2, Ott Varik 1, Magnús Dagur Jónatansson 1, Jens Bragi Bergþórsson 1.
Varin skot: Nicolai Horntvedt Kristensen 10, 23,8% – Bruno Bernat 3.