Haukar leika til úrslita við Val um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna annað árið í röð eftir þriðja sigurinn á Fram í undanúrslitum úrslitakeppni Olísdeildar kvenna í handknattleik á Ásvöllum í kvöld, 24:20. Staðan var jöfn í hálfleik, 10:10. Fram komst einu sinni yfir í leiknum, 11:10, í upphafi síðari hálfleiks.
Bæði lið léku frábæran varnarleik frá byrjun til enda. Flest mörk Hauka voru skoruð eftir seinni bylgju og hraðaupphlaup eftir óþarflega mörg mistök Fram-liðsins í sókninni og m.a. tapaða bolta.
Haukar voru yfir, 9:5, eftir liðlega 21 mínútu þegar tekið var leikhlé. Eftir leikhléið átti Fram frábæran kafla og jafnaði metin fyrir hálfleik.
Haukar voru sterkari framan af síðari hálfleik. Þeir náðu forskoti, 15:12, 17:13. Forskoti sem Fram tókst aldrei að minnka meira en niður í tvö mörk. Auk óþarflega margra tapaðra bolta þá var engin markvarsla hjá Fram í síðari hálfleik.
Steinunn og Þórey hættar
Leikurinn markaði ákveðin kaflaskil því með honum kvöddu tvær af fremstu handknattleikskonum landsins undanfarin 15 ár, Steinunn Björnsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir, sviðið. Þær hafa ákveðið að hætta í lok leiktíðar eftir langan og glæsilegan feril, ekki aðeins með Fram heldur einnig íslenska landsliðinu.
Mörk Hauka: Elín Klara Þorkelsdóttir 7/1, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 5, Thelma Melsted Björgvinsdóttir 3, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 2, Alexandra Líf Arnarsdóttir 2, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 2, Birta Lind Jóhannsdóttir 1, Inga Dís Jóhannsdóttir 1, Sara Odden 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 8, 32% – Elísa Helga Sigurðardóttir 2, 40%.
Mörk Fram: Valgerður Arnalds 9, Alfa Brá Hagalín 4, Lena Margrét Valdimarsdóttir 3/1, Steinunn Björnsdóttir 2, Þórey Rósa Stefánsdóttir 1, Harpa María Friðgeirsdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 6, 25% – Ethel Gyða Bjarnasen 0.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Olís kvenna: Leikjadagskrá, úrslitakeppni 2025
Handbolti.is var á Ásvöllum og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.