Haukar misstíga sig ekki í toppbaráttu Olísdeildar karla í handknattleik. Þeir halda áfram að sigla nokkuð fyrir ofan önnur lið deildarinnar og þeir undirstrikuðu þá stefnu sína með því að leggja KA á sannfærandi hátt í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í dag, 32:23, í 16. umferð deildarinnar.
Haukar voru sjö mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:10. Synd væri að segja að viðureignin í Schenkerhöllinni hafi verið spennandi. Slíkir voru yfirburðir Hauka að það var á köflum eins og aðeins eitt lið væri á vellinum. Strax í fyrri hálfleik voru Haukar búnir að skora tvöfalt fleiri mörk en KA-menn þegar komið var fram í miðjan hálfleikinn. Tíu marka munur var ekki óalgengur í síðari hálfleik.
Ekki stóð steinn yfir steini hjá KA gegn afar sterku liði Hauka sem stefnir hraðbyri að deildarmeistaratitlinum.
Haukar hafa 27 stig eftir 16 leiki og eru fjórum stigum á eftir FH sem er næst á eftir. Afturelding og ÍBV sem er í þriðja og fjórða sæti eru nú átta stigum á eftir Haukum.
Mörk Hauka: Orri Freyr Þorkelsson 7/1, Ólafur Ægir Ólafsson 6, Stefán Rafn Sigurmansson 5/3, Adam Haukur Baumruk 3, Bryjólfur Snær Brynjólfsson 2, Þráinn Orri Hónsson 2, Heimir Óli Heimisson 2, Geir Guðmundsson 2, Tjörvi Þorgeirsson 1.
Varin skot: Andri Sigmarsson Scheving 9, 40,9% – Björgvin Páll Gústavsson 4, 28,6%.
Mörk KA: Árni Bragi Eyjólfsson 9/3, Áki Egilsnes 4, Einar Birgir Stefánsson 2, Jóhann Geir Sævarsson 2, Jóhann Einarsson 2, Allan Norðberg 1, Þorri Starrason 1, Ólafur Gústafsson 1, Patrekur Stefánsson 1.
Varin skot: Nicholas Satchwell 6, 20,7% – Bruno Bernat 4, 36,4%.
Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.