- Auglýsing -
Haukar hafa samið við Úkraínumanninn Ihor Kopyshynskyi um að leika með liði félagsins út keppnistímabilið. Þorgeir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Hauka, staðfesti þetta í samtali við handbolta.is fyrir stundu.
Þorgeir sagði að vegna meiðsla í leikmannahópi Hauka hafi verið nauðsynlegt að ná í leikmann eins og Kopyshynskyi. Stefán Rafn Sigurmannsson glímir við meiðsli í hné sem verið væri að hlúa að. Jón Karl Einarsson ætti einnig í hnémeiðslum og verði frá keppni á næstunni af þeim sökum. Stefán Rafn og Jón Karl leika báðir í vinstra horni. „Við þurfum bakkupp á næstunni vegna þess að framundan er mikið leikjaálag þegar flautað verður til leiks á ný í Olísdeildinni,“ sagði Þorgeir í samtali við handbolta.is
Kopyshynskyi er öllum hnútum kunnugur eftir að hafa leikið hér á landi um árabil með Akureyri handboltafélagi og síðast hjá Þór Akureyri í Olísdeildinni á síðasta keppnistímabili.
Kopyshynskyi hefur þegar fengið leikheimild með Haukum og verður gjaldgengur þegar Haukar sækja Stjörnumenn heim í Olísdeildina í TM-höllina eftir viku.
- Auglýsing -