Vísir segir frá því í dag að Haukar hafi kært framkvæmd leiks Hauka og Gróttu sem fram fór í Olísdeild karla á Ásvöllum á fimmtudagskvöldið. Grótta vann leikinn eftir viðburðaríkar lokasekúndur, 28:27. Af þessum sigri leiðir að aðeins munar tveimur stigum á liðunum í áttunda og níunda sæti þegar tvær umferðir eru eftir af Olísdeildinni.
Stefán Rafn Sigurmannsson virtist hafa komið Haukum yfir, 28:27, nokkrum mínútum fyrir leikslok. Svo virtist vera sem dómarar hafi bæði gefið merki um línu á Stefán en einnig bent á miðju. Gróttumenn brunuðu fram völlinn og Birgir Steinn Jónsson skoraði rétt áður en leiktíminn var út. Í stað þess að jafna metin, 28:28, þá skoraði hann sigurmark.
Jöfnunarmark reyndist vera sigurmark á Ásvöllum
Haukar eru greinilega allt annað en sáttir úr því að þeir hafa kært framkvæmdina. Vísir hefur fengið staðfest hjá HSÍ að kæra vegna framkvæmdar sér kominn inn á borð sambandinsins. Einnig hefur Vísir kæruna undir höndum því í hana er vitnað í frétt.
„Handknattleiksdeild Hauka kærir hér með framkvæmd leiks Hauka og Gróttu í Olísdeild karla sem fram fór fimmtudaginn 23. mars 2023, þar sem dómari leiksins dæmir mark og staðfestir það með bendingum og flautumerki um að hefja megi leikinn á miðju með frumkasti,“ segir í kærunni sem liggur nú á borði Handknattleikssambandsins og Vísir vitnar til í frétt sinni.