Haukar eru úr leik í Evrópubikarkeppninni í handknattleik karla. Þeir töpuðu í kvöld með sjö marka mun, 33:26, fyrir Bosníumeisturum HC Izvidac í síðari leik liðanna í átta liða úrslitum í rífandi góðri stemningu í Sportska Dvorana Ljubuski í Bosníu. Um 4.000 áhorfendur voru á leiknum.
Haukar unnu fyrri viðureignina á Ásvöllum, 30:27, og falla þar með úr leik með samanlagt fjögurra marka mun, 60:56.
Staðan í hálfleik var 13:8 fyrir HC Izvidac, sem segir e.t.v. meira en mörg orð um uppskeru Hauka úr sóknarleiknum.
Haukar skoruðu fjögur af síðustu fimm mörkum leiksins eftir að úrslitin voru ráðin. Heimamenn náðu mest tíu marka mun skömmu fyrir lok viðureignarinnar.
HC Izvidac mætir annað hvort AEK Aþenu eða RK Partizan Belgrad í undanúrslitum. Haukar hafa lokið keppni eftir lærdómsríkan vetur.
Sóknarleikurinn reyndist Haukum erfiður í leiknum í kvöld. Haris Suljevic markvörður HC Izvidac átti stórleik og gerði leikmönnum Hauka erfitt fyrir. Hann varði 18 skot, 45%.
Mörk Hauka: Össur Haraldsson 6, Hergeir Grímsson 5, Adam Haukur Baumruk 3, Birkir Snær Steinsson 3, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 1, Guðmundur Hólmar Helgason 1, Ólafur Ægir Ólafsson 1, Þráinn Orri Jónsson 1, Andri Fannar Elísson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 10, 27,8% – Vilius Rasimas 1, 12,5%.
Mörk HC Izvidac: Milan Vukšic 9, Diano Neris Cesko 9, Flips Odak 5, Luka Sevic 3, Zvonimir Lukenda 2, Luka Bubalo 2, Amer Sahinovic 1, Matej Simic 1, Ognjen Kalamanda 1.
Varin skot: Haris Suljevic 18, 45% – Aldin Alihidzic 1, 20%.
Streymt var frá leiknum.