Handknattleiksdeild Hauka hefur tilkynnt að markvörðurinn Vilius Rasimas hafi lagt keppnisskóna á hilluna vegna meiðsla og leikir þar af leiðandi ekki með liðinu í vetur. Tíðindin koma ekki á óvart enda hefur verið fjallað um þau síðustu vikur þótt ekki hafi fengist staðfesting á þeim fyrr en nú úr herbúðum Hauka þótt eftir þeim hafi verið leitað.
Skilaði ekki árangri
Raismas fór í aðgerð á hné í vor en hún skilaði ekki tilætluðum árangri. Þar af leiðandi ákvað Litáinn öflugi að láta gott heita.
Rasimas gekk til liðs við Hauka sumarið 2024 eftir fjögurra ára veru með Selfossi.
Fluttur heim
„Við höfum komist að góðu samkomulagi um starfslok hans og Vilius hyggst flytja aftur heim til Litháen, þar sem hann hefur tekið við handboltatengdri stjórnunarstöðu. Þó að við séum leið yfir að missa hann, erum við stolt af næsta skrefi hans og þakklát fyrir allt sem hann lagði til liðsins,“ segir í tilkyningu handknattleiksdeildar Hauka.
Hætti við að hætta
Rasimas hefur ekkert komið við sögu hjá Haukum á fyrstu vikum leiktíðarinnar í Olísdeildinni. Brotthvarf hans varð til þess að Aron Rafn Eðvarðsson hætti við að hætta og ver nú mark Hauka af miklum móð.