„Við leikum báða leikina úti í Aserbaísjan,“ sagði Andri Már Ólafsson formaður handknattleiksdeildar Hauka í samtali við handbolta.is í dag eftir að hann náði samkomulagi við forráðamenn handknattleiksliðsins Kur í Mingachevir í Aserbaísjan um að báðar viðureignir Hauka og Kur í 32 liða úrslitum Evrópubikarkeppni karla fari fram í Mingacher. Leikið verður laugardaginn 30. nóvember og sunnudaginn 1. desember.
Langt ferðalag
Framundan er ríflega 5.000 km ferðalag í loftlínu frá Íslandi til Aserbaísjan. Um er vafalaust að ræða lengsta ferðlag sem íslenskt félagslið í handknattleik hefur nokkru sinn farið vegna þátttöku í Evrópukeppni félagsliða.
Sársaukamörk þeirra hærri
„Segja má að sársaukamörk þeirra varðandi kostnaðinn hafi verið hærri en okkar og þess vegna leikum við ytra,“ sagði Andri og bætti við að niðurstaðan væri viðráðanleg fyrir Hauka en afar dýrt hefði verið að fá lið Kur hingað til lands.
Fljótlega eftir að félögin hófu að tala saman var útilokað að leika heima og að heiman. Eins var ekki álitlegt að mætast á miðri leið og leika í mið-Evrópu, svo dæmi sé tekið.
Andri Már vildi ekki greina frá kostnaði vegna ferðarinnar.
Koma tveimur dögum fyrir leik
Andri sagði á það stefnt að koma til Mingachevir seint fimmtudaginn 28. nóvember svo að leikmenn fái heilan dag og nái a.m.k. einni góðri nótt áður en fyrri leikurinn fer fram laugardaginn 30. nóvember.
Flogið frá Istanbúl
Ljóst er að flogið verður frá Istanbúl til Bakú, höfuðborgar Aserbaísjan sem liggur við SV-strönd Kaspíahafs. Ferðast þarf frá Bakú til Mingachevir, sem er inni í miðju landi. Á fjórða hundrað kílómetrar eru á milli borganna í veglínu. Stefnt er á að fara frá Mingachevir fljótlega eftir síðari leikinn.
„Verkefni morgundagsins er að hnýta síðustu lausu endana varðandi flugið,“ sagði Andri Már Ólafsson formaður handknattleiksdeildar Hauka.