Kvennalið Hauka lagði af stað snemma í morgun með flugi áleiðs til Tékklands þar sem það mætir á morgun Hazena Kynzvart í bænum Cheb í fyrri umferð átta liða úrslit Evrópubikarkeppninnar. Flautað verður til leiks klukkan 15. Síðari viðureignin verður eftir rúma viku á Ásvöllum.
Hazena Kynzvart leikur í sameiginlegri deild sterkustu kvennaliða Tékklands og Slóvakíu, MOL-deildinni. Tólf lið eiga sæti í deildinni. Hazena Kynzvart er í fjórða sæti eftir 19. umferðir með 26 stig, tveimur stigum á eftir Most sem er efst tékkneskra liða.
Í tveimur efstu sætum MOL-deildarinnar eru Dunajska Streda og Michalovce frá Slóvakíu. Slavía Prag, sem Valur leikur við í átta liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í tvígang eftir rúma viku, situr í fimmta sæti, fjórum stigum á eftir andstæðingum Hauka, Hazena Kynzvart.
Lið Hazena Kynzvart er skipað tékkneskum leikmönnum að uppistöðu til. Ein kona er þó frá Úkraínu, önnur frá Svartfjallalandi og sú þriðja er tyrknesk.
Í 16-liða úrslitum snemma í janúar vann Hazena Kynzvart lið Madeira Andebol SAD frá Portúgal með samanlagt einu marki, 61:60. Áður hafði Hazena Kynzvart rutt úr vegi KHF Istogu frá Kósovó og slóvenska liðinu ZRD Litija.
Á síðasta tímabili datt Hazena Kynzvart úr leik í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar eftir naumt tap fyrir HC Gjorche Petrov-WHC Skopje frá Norður Makedóníu.
Haukar lögðu úkraínska liðið HC Galychanka Lviv í 16-liða úrslitum í tveimur leikjum á útivelli, HC Dalmatinka Ploce frá Króatíu í tveimur hörkuleikjum ytra í 32-liða úrslitum og belgíska liðið KTSV Eupen með talsverðum yfirburðum í fyrstu umferð.