- Auglýsing -
Hvorki Haukar né KA leika á heimavelli í annarri umferð Evrópubikarkeppni karla í handknattleik sem stendur fyrir dyrum í kringum næstu mánaðarmót. KA fer til Vínarborgar en Haukar halda til Nikósíu og leika þar báða leiki sína við Sabbianco Famagusta helgina 5. og 6. nóvember.
Haukar þekkja vel til í höfuðborg Kýpur. Liðið lék þar einnig fyrir ári og þá við Parnassos Strovolou í tvígang og hafði betur með nokkrum mun. Eftir því sem næst verður komist eru Parnassos Strovolou og Sabbianco Famagusta tvö bestu karlaliðin í karlaflokki á Kýpur.
KA leikur við HC Fivers í Vínarborg föstudaginn 28. og laugardaginn 29. október. HC Fivers er sem stendur í þriðja sæti austurrísku 1. deildarinnar með átta stig eftir fimm leiki og kemur næst á eftir Krems og Alpla Hard sem Hannes Jón Jónsson þjálfar.
Eins og kom fram á handbolta.is fyrr í dag reiknar ÍBV með að taka á móti úkraínska liðinu Donbas í Vestmannaeyjum helgina 5. og 6. nóvember.
- Auglýsing -