Valur og Haukar geta dregist saman á morgun þegar dregið verður í átta liða úrslit Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik. Sextán liða úrslitum lauk um nýliðna helgi. Auk Hauka og Vals standa eftir tvö lið frá Tékklandi, eitt spænskt, eitt grískt, eitt frá Póllandi og annað frá Slóvakíu.
Engar girðingar verða settar upp fyrir dráttinn sem þýðir m.a. að lið frá sama landi geta dregist saman. Nöfn liðanna átta verða saman í einni skál sem dregið verður upp úr.
Hafist verður handa við að draga í átta liða úrslit klukkan 10 í fyrramálið.
Leikir átta liða úrslita eiga að fara fram 15. og 16. febrúar og 22. og 23. febrúar. Sömu helgar verður leikið í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppni karla þar sem Haukar eru einnig á meðal þátttakenda.
Liðin átta sem eftir eru:
DHC Slavia Prag (Tékkaland).
Hazena Kynzvart (Tékkland).
Conservas Orbe Zendal Bm Porrino (Spánn).
O.F.N. Ionias (Grikkland).
Haukar.
Valur.
MKS Urbis Gniezno (Pólland).
MSK IUVENTA Michalovce (Slóvakía).