Nýliðar Gróttu voru hársbreidd frá því að krækja i a.m.k. annað stigið gegn Haukum í viðureign liðanna í Olísdeild karla í kvöld en leikið var í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi. Lokatölur, 20:19, fyrir Haukana. Segja má að þeir hafi sloppið með skrekkinn að þessu sinni. Gróttumenn voru tveimur mörkum yfir í hálfleiks, 13:11. Síðari hálfleikur var í járnum og varnarleikur í aðalhlutverki hjá báðum liðum.
Heimir Óli Heimisson skoraði sigurmark Hauka þegar innan við tíu sekúndur voru til leiksloka. Andri Scheving, markvörður Hauka, var síðan hetja liðsins á síðustu andartökum leiksins þegar hann varði skot Birgis Steins Jónssonar, eftir því sem fram kemur í textalýsingu hjá Visir.is.
Markverðir liðanna, fyrrgreindur Andri, og Stefán Huldar Stefánsson, sem er í láni hjá Gróttu frá Haukum, léku afar vel. Samkvæmt tölfræði Vísis var Andri með 55% hlutfallsmarkvörslu og Stefán 43 %.
Lúðvík Arnkelsson var markahæstur hjá Gróttu með fimm mörk. Andri Þór Helgason og Birgir Steinn Jónsson komu næstir með fjögur mörk hvor.
Jón Karl Einarsson, Ólafur Ægir Ólafsson og Brynjólfur Snær Brynjólfsson skoruðu fjögur mörk hver fyrir Hauka.