-Auglýsing-

Haukar sóttu tvö stig í Úlfarsárdal

- Auglýsing -

Haukar voru sterkari þegar kom fram í síðari hálfleik gegn Fram í Olísdeild karla í Lambhagahöllinni í kvöld. Þar af leiðandi unnu Haukar fimm marka sigur, 32:27, eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik, 14:12. Með sigrinum færðust Haukar upp að hlið Valsara með sex stig í öðru til þriðja sæti deildarinnar.


Þetta var um leið annað tap Framara í röð. Þeir misstu dampinn um miðjan síðari hálfleik gegn sterkum Haukum sem léku afar vel í síðari hálfleik, jafnt í vörn sem sókn. Sannarlega var skarð fyrir skildi hjá Fram að vera án Marels Baldvinssonar sem leikur ekkert meira með á keppnistímabilinu og Rúnars Kárasonar sem varð að sitja hjá vegna meiðsla að þessu sinni.

Haukar voru óárennilegir í þeim ham sem þeir voru í síðari hálfleik. Liðsheildin var afar góð, jafnt í vörn sem sókn.

Sérlega gleðilegt var að sjá Darra Aronsson með Haukum á ný eftir þriggja ára fjarveru frá handboltavellinum vegna langvarandi og erfiðra meiðsla af ýmsum toga. Darri kom öflugur inn í varnarleik Hauka í síðari hálfleik. Engum blöðum er um að fletta að mikill styrkur er að komu Darra sem vonandi nær fyrri styrk með tíð og tíma.


Mörk Fram: Dánjal Ragnarsson 7, Ívar Logi Styrmisson 6/4, Kjartan Þór Júlíusson 4, Lúðvík Thorberg B. Arnkelsson 4, Dagur Fannar Möller 3, Arnar Snær Magnússon 1, Max Emil Stenlund 1, Erlendur Guðmundsson 1.
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 6/2, 30% – Arnór Máni Daðason 3, 15%.

Mörk Hauka: Skarphéðinn Ívar Einarsson 9, Birkir Snær Steinsson 6, Freyr Aronsson 5, Sigurður Snær Sigurjónsson 3, Jón Ómar Gíslason 2, Hergeir Grímsson 2, Andri Fannar Elísson 2, Aron Rafn Eðvarðsson 1, Ólafur Ægir Ólafsson 1, Þráinn Orri Jónsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 15, 36,6% – Magnús Gunnar Karlsson 0.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -