- Auglýsing -
- Auglýsing -

Haukar tóku Framara í karphúsið

Stuðningsmenn Hauka fjölmenn á heimavöllinn í kvöld. Mynd/Kristján Orri Jóhannsson
- Auglýsing -

Haukar leika til úrslita í Poweradebikarnum í handknattleik karla laugardaginn við annað hvort Aftureldingu eða Stjörnuna. Það varð ljóst eftir að leikmenn Hauka tóku Framara í karphúsið í Laugardalshöll í undanúrslitum í kvöld. Lokatölur, 32:24, eftir að Haukar voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13:11.


Fram komst yfir, 1:0. Haukar svöruðu með fimm mörkum í röð og sendu þar með skýr skilaboð til leikmanna Fram. Fram tókst aðeins að klóra í bakkann en Haukar voru áfram með frumkvæðið.


Strax í byrjun síðari hálfleiks má segja að leikmenn Hauka hafi tekið völdin í leiknum. Þeir skelltu í lás í vörninni. Leikmenn Fram áttu engin svör og þá sjaldan þeim tókst að komast í upplögð marktækifæri þá varði Aron Rafn Eðvarðsson eða þá að markið reyndist of lítið.

Guðmundur Bragi Ástþórsson lék með Haukum á ný eftir meiðsli og fór á kostum. Mynd/Kristján Orri Jóhannsson


Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður voru Haukar komnir með tíu marka forskot, 25:15. Fram tókst að skora þrjú mörk í röð og kveikja örlitlar vonir í brjósti sínu. Öflugir Haukar slökktu fljótlega í vonunum og marseruðu áfram í átt að öruggum sigri, 32:24.


Gamla góða Haukaliðið skein í gegn að þessu sinni. Ljóst var að leikmenn ætluðu sér í úrslit og léku einbeittir að því markmiði. Framara voru miður sín og fundu ekki réttu leiðirnar í sókninni. Eftir tvo sigurleiki í deildinni í vetur var komið að skuldadögum hjá leikmönnum Hauka.


Mörk Fram: Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 4, Marko Coric 4/3, Kjartan Þór Júlíusson 3, Breki Dagsson 3, Ívar Logi Styrmisson 2, Ólafur Brim Stefánsson 2, Reynir Þór Stefánsson 2, Kristófer Dagur Sigurðsson 1, Arnar Snær Magnússon 1, Stefán Darri Þórsson 1, Stefán Orri Arnalds 1.
Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson 8, 29,6% – Breki Hrafn Árnason 4, 25%.
Mörk Hauka: Andri Már Rúnarsson 7, Ólafur Ægir Ólafsson 5, Guðmundur Bragi Ástþórsson 5, Heimir Óli Heimisson 4, Stefán Rafn Sigurmannsson 4, Kristófer Máni Jónasson 2, Össur Haraldsson 2, Þráinn Orri Jónsson 2, Adam Haukur Baumruk 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 11, 33,3% – Matas Pranckevicus 0.

Handbolti.is var í Laugardalshöll og fylgdist með leiknum í textalýsingu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -