Fréttatilkynning frá stjórn handknattleiksdeildar Hauka:
„Undanfarna daga hefur ÍBV komið fram í fjölmiðlum og gagnrýnt HSÍ og Hauka. Gagnrýnin hefur snúið að leikjaskipulagi ÍBV og helst einum leik Hauka og ÍBV í mfl. kvk.
Haukar vísa þessari gagnrýni alfarið á bug þar sem málið er ekki á forræði Hauka. Svo því sé haldið til haga að þá vöktu Haukar athygli á því að mögulega þyrfti að breyta leiktíma leiksins, fyrst í ágúst og aftur um miðjan október og buðu upp á ýmsa möguleika og dagsetningar til þess að spila umræddan leik. Góðar líkur voru á að ÍBV væri að spila í Evrópukeppni á settum leiktíma. Ekki gekk að fá staðfestan leiktíma og fór ákvörðun til mótanefndar.
Í ljósi leikjaplans og dagskrá íþróttahússins ákvað mótanefnd HSÍ leiktíma 8. nóvember, en það var ekki ákvörðun Hauka. Haukar hafa alltaf komið til móts við lið í Evrópukeppnum og munu gera það áfram.
Þá er það miður að þjálfari ÍBV skuli nafngreina Díönu Guðjónsdóttur annan þjálfara Hauka í sinni umræðu og draga heilindi hennar í efa. Það er ómaklegt og ómálefnalegt því Díana er afar fagleg í sínum störfum og hefur ávallt hugað að hagsmunum leikmanna er varðar álag og aðra þætti. Hún ákvarðar hins vegar ekki leiktíma leikja heldur mótanefnd.
Að lokum óska Haukar ÍBV góðs gengis í Evrópuleikjum um helgina og að félagið láti þetta ekki stöðva þátttöku sína í Evrópukeppni í framtíðinni.“