Haukur Þrastarson er í leikmannahópi pólska meistaraliðsins Lomza Vive Kielce í kvöld þegar liðið mætir ungverska liðinu Veszprém í annarri umferð B-riðils Meistaradeildar Evrópu í handknattleik. Þetta er í fyrsta sinn á leiktíðinni sem Haukur er í leikmannahópi Vive Kielce í kappleik. Hann tók lítillega þátt í nokkrum æfingaleikjum áður en keppnistímabilið hófst.
Haukur sleit krossband í hné fyrir nærri 11 mánuðum í leik Vive Kielce og Elverum í Meistaradeildinni. Eftir að hafa gengist undir aðgerð hér á landi fljótlega eftir að krossbandið slitnaði hefur Haukur verið í stífri endurhæfingu. Hann sagði í samtali við Vísi á dögunum að engin pressa væri á honum af hálfu félagsins eða þjálfara að mæta til leiks sem fyrst.
Annar íslenskur landsliðsmaður leikur með Vive Kielce, Sigvaldi Björn Guðjónsson. Hann verður að vanda í leikmannahópnum í kvöld.
Kielce tapaði fyrir Dinamo Búkarest í fyrstu umferð B-riðils Meistaradeildarinnar í síðustu viku, 32:29.