Haukur Þrastarson fagnaði með liðsfélögum sínum í Łomża Vive Kielce í gær þegar þeir fengu afhent verðlaun fyrir sigur í pólsku úrvalsdeildinni í handknattleik eftir sigur á Wisla Plock í lokaumferðinni í gær á heimavelli, 33:32, að lokinni í vítakeppni. Sigvaldi Björn Guðjónsson leikur einnig með pólska meistaraliðinu sem tapaði ekki leik í pólsku úrvalsdeildinni á keppnistímabilinu.
Haukur hefur ekki leikið með liðinu síðan í haust að hann sleit krossband. Síðan hefur hann verið í stífri endurhæfingu og stefnir á að verða klár í slaginn í haust. M.a. hefur hluti endurhæfingarinnar farið fram hér á landi.
Faðir Hauks, Þröstur Ingvarsson, slóst í för með syni sínum til Póllands til þess að taka þátt í gleðinni vegna fyrsta meistaratitils piltsins í Póllandi. Birtist m.a. ofangreind mynd af þeim feðgum á Faceobook sem Örn Þrastarson gaf handbolta.is leyfi til að birta.