Haukur Þrastarson og samherjar í rúmenska meistaraliðinu Dinamo Búkarest urðu fyrstir til þess að vinna Portúgalsmeistara Sporting frá Lissabon í Meistaradeild Evrópu á leiktíðinni. Orri Freyr Þorkelsson leikur með Sporting sem heldur áfram efsta sæti A-riðils þrátt fyrir 33:29, tapið í rúmensku höfuðborginni.
Dinamo var tveimur mörkum undir í hálfleik, 15:13, en liðið tók öll völd í viðureigninni fljótlega í síðari hálfleik. Leikmenn Sporting fengu ekki við neitt ráðið.
Orri Freyr var markahæstur leikmanna Sporting í leiknum með sex mörk.
Haukur skoraði fimm mörk fyrir Dinamo og gaf þrjár stoðsendingar. Egyptinn Ali Zein var markahæstur með sjö mörk.
Tímamótasigur
Guðmundur Þórður Guðmundsson fagnaði sínum fyrsta sigri með danska liðinu í Fredericia HK í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Um leið var þetta fyrsti sigur liðsins í sögu sinni í Meistaradeildinni því það er nú í fyrsta sinn með í Evrópukeppni félagsliða í 44 ár.
Fredericia HK lagði pólsku meistarana Wisla Plock, 28:25, í Jyske Bank Arena í Óðinsvéum eftir að hafa verið skrefi á undan frá upphafi. M.a. var Fredericia með tveggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 13:11.
Arnór Viðarsson kom ekki mikið við sögu. Einar Þorsteinn Ólafsson tók þátt í varnarleiknum og var tvisvar vikið af leikvelli. Báðir leika þeir með Fredericia.
Viktor Gísli Hallgrímsson var í marki Wisla Plock frá byrjun til enda ef frá er talið eitt vítakast. Viktor Gísli varði 9 skot, 25%.
Staðan í A-riðli: