Haukur Þrastarson og samherjar í Dinamo Búkarest settust í þriðja sæti A-riðils Meistaradeildar Evrópu með öruggum sigri á Füchse Berlin, 38:31, í Polyvalent Hall í Búkarest í kvöld. Þýska liðið var marki yfir eftir fyrri hálfleik, 19:18, en réði ekkert við Hauk og félaga þegar kom fram í síðari hálfleik. Þeir léku frábæra vörn með Ciprian Iancu markvörð í stuði.
Haukur skoraði tvö mörk fyrir Dinamo og gaf fjórar stoðsendingar. Haniel Langaro og Yoav Lumbroso skoruðu fimm mörk hvor en annars dreifðist markaskorun nokkuð jafn niður á leikmenn rúmenska meistaraliðsins. Danirnir Lasse Andersson og Mathias Gidsel vor markahæstir hjá Füchse Berlin með átta og sjö mörk.
Náðum ekki öðrum sigri í röð
Á sama tíma og þessu fór fram þá tapaði danska liðið Fredericia HK, undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar, fyrir Eurofarm Pelister, 25:23, á heimavelli. Eftir kærkominn sigur í keppninni fyrir viku tókst lærisveinum Guðmundar ekki að fylgja honum eftir með öðrum í kvöld.
Fredericia HK var þremur mörkum yfir að lokum fyrri hálfelik, 12:9. Norður Makedóníumeistararnir sneru taflinu við í síðari hálfleik og skoruðu 16 mörk gegn 11. Nikola Mitrevski markvörður var sannarlega betri en enginn í marki Eurofarm Pelister.
Tvö mörk
Arnór Viðarsson og Einar Þorsteinn Ólafsson skoruðu sitt hvort markið fyrir Fredericia. Kasper Andersson var markahæstur með fjögur mörk. Eins og stundum áður var Filip Kuzmanovski markahæstur hjá Eurofarm Pelister. Hann skoraði fimm sinnum.
Eurofarm Pelister komst þar með upp úr neðsta sæti A-rðils og upp í það sjötta með fjögur stig. Fredericia og Wisa Plock reka lestina með tvö stig hvort.
Fyrir leikinn í kvöld hafði Eurofarm Pelister leikið 24 leiki í röð í Meistaradeild Evrópu án sigurs.
Staðan í A-riðli: