- Auglýsing -
- Auglýsing -

Haukur og félagar kræktu í tvö stig í Elverum

Talant Dujshebaev fer yfir málin með sínum mönnum. Hann e.t.v. á leið frá Kielce ásamt sonum sínum tveimur. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Haukur Þrastarson og samherjar í pólska meistaraliðinu Łomża Industria Kielce komust í efsta sæti B-riðils Meistaradeildar Evrópu í kvöld, a.m.k. um stundarsakir, þegar liðið vann norsku meistarana, Elverum, naumlega í Terningen Arena í Elverum, 27:26, í hörkuleik. Kielce var einnig marki yfir að loknum fyrri hálfleik.


Kielce hefur 14 stig að loknum átta leikjum og er stigi fyrir ofan Barcelona sem á til góða leik við Kiel á heimavelli síðar í kvöld.
Alex Dujshebaev, sonur þjálfara Kielce, skoraði markið sem reyndist vera sigurmarkið þegar tæp mínúta var til leiksloka.

Haukur Þrastarson lék mikið með í síðari hálfleik en tókst ekki að skora en fórst vel úr hendi að stýra leik Kielce.

Þýski landsliðsmarkvörðurinn Andreas Wolff var besti maður vallarins. Hann varði 19 skot í marki Kielce, 42%. Emil Imsgard, markvörður Elverum, komst í hálfkvisti við Wolff.


Dujshebev var markahæstur hjá Kielce með sex mörk. Nicolas Tournat var næstur með fjögur mörk. Uroz Bozas var atkvæðamestur hjá Elverum með sex mörk og næstur kom Tobias Grøndal með fimm mörk.

Lítið að gera hjá Orra Frey

Orri Freyr Þorkelsson kom því miður lítið við sögu hjá Elverumliðinu. Elverum er neðst í riðlinum ásamt Slóveníumeisturum Celje. Hvort lið hefur tvö stig.


Celje tapaði á heimavelli fyrir ungversku meisturunum Pick Szeged í Celje í kvöld, 36:28. Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæmdu leikinn af röggsemi eins og þeirra var von og vísa.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -