Pólska meistaraliðið Łomża Industria Kielce tryggði sér í morgun sæti í undanúrslitum heimsmeistaramóts félagsliða í handknattleik karla með níu marka sigri á brasilíska liðinu Handebol Taubaté, 39:30, í annarri umferð keppninnar í Dammam í Sádi Arabíu.
Haukur skoraði eitt mark í leiknum en átti þrjú markskot. Einnig var hann drjúgur í varnarleiknum. Łomża Industria Kielce var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:16.
Alex Dujshebaev var markahæstur hjá Łomża Industria Kielce með sex mörk ásamt Dylan Nahi. Szymon Sicko skoraði fimm mörk.
Mótið fer fram í fjórum þriggja liða riðlum og lýkur riðlakeppninni í dag. Reikna má með að Evrópumeistarar Barcelona, Benfica sem vann Evrópudeildina í vor, og SC Magdeburg vinni hina riðlana þrjá en þau leika öll síðar í dag. Undanúrslitin verða leikin á laugardaginn og úrslitaleikirnir á sunnudag.
Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon leika gegn Al Khaleej frá Sádi Arabíu eftir miðjan dag. Magdeburg vann Syndey University örugglega í fyrradag, 41:23. Magdeburgliðið stóð uppi sem sigurvegari á mótinu á síðasta ári.