- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Haukur tekinn út úr hópnum fyrir úrslitaleikinn

Haukur Þrastarson verður með Vive Kielce í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Haukur Þrastarson er ekki í leikmannahópi Łomża Vive Kielce sem leikur við Barcelona í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla í Lanxess-Arena í Köln í dag. Talant Dujsebaev tilkynnti í morgun hvaða 16 leikmönnum hann ætlar að tefla fram í úrslitaleiknum. Því miður er Haukur ekki þar á meðal þrátt fyrir afar góða frammistöðu í undanúrslitaleiknum við Veszprém í gær.


Í stað Hauks kemur Pólverjinn Michal Olejniczak. Þeir eru jafnaldrar. Báðir komu þeir í heiminn árið 2001.

Verður ekki sá fjórði

Haukur verður þar með ekki í bili fjórði íslenski handknattleiksmaðurinn til þess að taka þátt í úrslitaleik Meistaradeildar eftir að núverandi fyrirkomulag var tekið upp árið 2010. Þeir þrír sem hafa leikið til úrslita eru Aron Pálmarsson (THW Kiel, Veszprém, Barcelona), Guðjón Valur Sigurðsson (THW Kiel, Barcelona) og Ólafur Gústafsson (Flensburg-Handewitt).


Einnig hafa þjálfararnir Alfreð Gíslason (THW Kiel) og Arnór Atlason (Aalborg Håndbold) tekið þátt í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á undanförum 12 árum.


Áður en fyrirkomulagi keppninnar var breytt með úrslitahelginni 2010 lék Ólafur Stefánsson fjórum sinnum til úrslita. Þá var leikið heima og að heiman, 2001 með Magdeburg og 2005, 2008 og 2009 með Ciudad Real. Hann var í öll skiptin í sigurliði keppninnar. Alfreð var þjálfari Magdeburg sem vann keppnina 2001.


Enn fyrr eða árið 1988 lék Alfreð til úrslita í Evrópukeppni meistaraliða sem þá nefndist með þýska liðinu Tusem Essen. Essen tapaði fyrir CSKA Moskvu í tveimur leikjum á færri mörkum skoruðum á útivelli.


Átta árum áður lék karlalið Vals til úrslita í Evrópukeppni meistaraliða og tapaði fyrir Grosswallastadt.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -