- Tveir þrautreyndir og fyrrverandi landsliðsmarkverðir Spánar eru síður en svo af baki dottnir þótt þeir séu komnir nokkuð inn á fimmtugasta áratuginn í aldri. José Manuel Sierra sem er 42 ára gekk fyrir skömmu til liðs við Bidasoa Irun. Jose Javier Hombrados, sem er sex árum eldri en Sierra, hefur heldur ekki sungið sitt síðasta á milli markstanganna. Hombrados, sem lék 258 landsleiki fyrir Spán á nærri 20 ára tímabili, ætlar að taka eitt ár til viðbótar með Guadalajara sem hann hefur leikið með síðustu fimm ár.
- Í mars 2019 var tilkynnt að Norðmaðurinn Sandor Sagosen myndi yfirgefa franska stórliðið PSG sumarið 2020 og gerast leikmaður THW Kiel. Ekki ráð nema í tíma sé tekið sögðu sumir en nú er hann sem sagt fluttur til Þýskalands og tilbúinn í ný ævintýri, ekki síst við að endurheimta sess Kiel-liðsins í hópi fjögurra bestu liða Evrópu sem hann segir vera eitt helsta markmið sitt.
- Talandi um að ekki sé ráð nema í tíma sé tekið. Í dag tilkynnnti þýska 1. deildarliðið Eulen Ludwigshafen að Ben Matschke þjálfari hætti við lok keppnistímabilsins næsta vor en útlit er fyrir að keppni í þýsku 1. deildinni standi fram undir lok júnímánaðar. Matschke sagði í samtali við þýska fjölmiðla að forsvarsmenn liðsins vildi breyta. Matschke, sem er 38 ára, tók við þjálfun Eulen Ludwigshafen fyrir fimm árum en áður hafði hann leikið með því.
- Guðmundur Þórður Guðmundsson framlengdi í sumar samning sinn um þjálfun íslenska karlalandsliðsins í handknattleik um eitt ár eða fram til ársins 2022. Guðmundur Þórður er einnig samningsbundinn þýska liðinu Melsungen ári skemur.
- Spánverjinn Arnau Garcia yfirgaf Toulose í Frakklandi í sumar og gekk til liðs við Benfica í Portúgal. Garcia er 26 ára gamall og er hægri handar skytta.