- Danska landsliðskonan, Sarah Iversen, skrifaði undir nýjan samning við bikarmeistara Herning/Ikast sem gildir út leiktíðina vorið 2023. Iversen leikur ekki með Herning/Ikast á þessari leiktíð vegna þess að hún væntir barns í janúar. Hún mætir til leiks af fullum krafti eftir ár.
- Franski landsliðsmaðurinn og línumaðurinn þrautseigi Cédric Sorhaindo framlengdi samning sinn við Barcelona til eins árs.
- Króatíski varnarsérfræðingurinn Alen Blažević yfirgaf Pick Szeged í sumar og gekk til liðs við rúmenska liðið HC Dobrogea Sud.
- Þýski línumaðurinn Manuel Späth ákvað að freista gæfunnar í Portúgal á næsta keppnistímabili. Hann er nú liðsmaður Porto eftir að hafa leikið með Stuttgart um skeið.
- Hinn efnilegi portúgalski markvörður, Diogo Valerio, leikur undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar hjá Gummersbach í vetur. Hann var á samningi hjá Benfica en fékk ekki mörg tækifæri þar á síðasta vetri og var þá lánaður til OS Belenenses.
- Hinn þekkti króatíski handknattleiksmaður Zlatko Horvat yfirgaf óvænt uppeldisfélag sitt RK Zagreb í sumar og skrifaði undir eins árs samning við Metalurg í Norður-Makedóníu.
- Auglýsing -