„Ég hef aðeins verið í brasi með annan kálfann en vonandi heyrir það sögunni til. Síðustu daga höfum við stýrt álaginu til þess að auka líkurnar á að verða klár þegar á hólminn verður komið,“ sagði Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handknattleik í viðtali við handbolta.is fyrir æfingu landsliðsins í Safamýri í morgun.
Allt í góðu í gær
Athygli vakti um helgina að Bjarki Már tók ekki þátt á æfingum með öðrum leikmönnum landsliðsins sem búa sig undir þátttöku á Evrópumótinu. Hann var hins vegar með af fullum þunga í gær og í dag leit ekki út fyrir annað en að Bjarki Már yrði með þegar handbolti.is rak inn nefið í Safamýri rétt áður en æfingin hófst.“
Hefur ekkert kvartað
„Bjarki hefur ekkert kvartað við mig eftir æfinguna í gær svo ég reikna með hann verði með á fullu í dag,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari aðspurður um Bjarka Má í morgun.
Orðinn eldri en tvævetur
„Það er smá stífleiki í kálfanum sem ég er að vinna mig út úr. Ég ætla ekki að jinxa mig en vonandi er þetta ekki eitthvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af þegar EM hefst. Ég er orðinn eldri en tvævetur og veit hvað þarf til þess að komast í gegnum stórmót. Álagið verður mikið en sem betur fer erum við með gott teymi í kringum liðið auk góðrar breiddar í leikmannahópnum,“ sagði Bjarki Már pollrólegur en hann varð að draga sig úr landsliðinu á endasprettinum á HM fyrir vegna meiðsla.
Fyrsti leikur íslenska landsliðsins á EM verður gegn ítalska landsliðinu föstudaginn 16. janúar í Kristianstad.



