„Fyrir tveimur árum hefðum við örugglega tapað svona leik. Vissulega voru við nærri því að fá bara annað stigið en Róbert varði vítakastið. Það féll semsagt eitthvað með okkur, nokkuð sem ekki hefur mikið um á undanförnum árum,“ sagði Sebastian Alexandersson þjálfari HK eftir nauman sigur nýliðanna á Haukum, 30:29, í fyrsta leik liðanna í Olísdeild karla í Kórnum í Kópavogi í kvöld.
Vildi ekki breyta vörninni
„Við komum okkur í góða stöðu í leiknum en voru klaufar að missa niður góða stöðu verandi þremur mörkum yfir þegar tvær mínútur eru eftir. Menn voru orðnir mjög þreyttir. Ég vildi bara ekki skipta ferskum mönnum inn á til þess að breyta ekki vörninni. Svo spilað stress kannski líka inn í,“ sagði Sebastian sem er viss um að frammistaðan í kvöld sanni að leikmenn hans hafi vaxið og þroskast við hverja raun á undanförnum árum.
Góð orka í liðinu
„Mér fannst við yfirhöfuð vera flottir í leiknum. Orkan var góðu í liðinu. Haukar eru líkamlega sterkir. Þess vegna var mjög krefjandi fyrir okkur að leika þá vörn sem við lékum í kvöld. Hún útheimtir mikla orku,“ sagði Sebastian en varnarleikur HK drap talsvert niður samspil og tempó í sóknarleik Hauka.
„Ég er heppinn að vera með leikmenn sem ráða við Geir [Guðmundsson] og Guðmund [Hólmar Helgason] í styrk, þyngd og hraða en það er ógeðlega erfitt að eiga við þá,“ sagði Sebastian.
Er í okkar höndum
„Sigur í fyrsta leik á heimvelli er okkur mjög dýrmætt veganesti í næstu leiki. Það sýnir okkur að á góðum degi þá eigum við möguleika. Um leið er það í okkar höndum að góðu dagarnir verði fleiri en þeir slæmu,“ sagði Sebastian Alexandersson léttur á brún og brá þegar handbolti.is hitti hann eftir sigurinn í Kórnum í kvöld.