„Höggið sem ég fékk á öxlina mun ekki hafa nein áhrif á þátttöku mína í mótinu,“ sagði Orri Freyr Þorkelsson vinstri hornamaður íslenska landsliðsins við handbolta.is í dag er hann var spurður hvort þung bylta sem hann varð fyrir í vörn seint í leiknum við Króata í gær hefði áhrif á þátttöku hans í mótinu.
Orri Freyr var hlaupinn niður þar sem hann stóð í vörn seint í síðari hálfleik. Höggið við fallið kom á vinstri öxlina. Eftir að hafa fengið aðhlynningu inni á leikvelli hjá Jóni Birgi Guðmundssyni sjúkraþjálfara fór Orri Freyr af leikvelli.

Margir gripu andann á lofti þegar Orri Freyr lá í gólfinu þjakaður en fyrr í leiknum fékk Haukur Þrastarson mikið högg á kinnbein þegar hann varðist. Elvar Örn Jónsson meiddist í leiknum við Ungverja á þriðjudaginn og verður ekkert meira með á mótinu.
Orri Freyr verður óhikað með í leiknum við Svía í Malmö Arena annað kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 17.

