Þórir Hergeirsson fyrrverandi landsliðsþjálfari Noregs og sigursælasti landsliðsþjálfari sögunnar segist ekki hafa áhuga á því að verða næstu þjálfari danska kvennalandsliðsins. „Það kemur ekki til greina,“ segir Þórir í svari sínu til norskra Dagbladet í dag.
Norskir og danskir fjölmiðlar og jafnvel fleiri hafa nefnt Þóri til sögunnar þegar leit danska handknattleikssambandsins á eftirmanni Jeseper Jensen hefur borið á góma. Jensen sagði starfi sínu lausu snemma í vikunni frá og með 30. júní.
Áhugi en engar viðræður
Þórir segist hafa fundið fyrir áhuga félagsliða á síðustu vikum en það hafi ekki leitt til alvarlegra viðræðna. Meðal liða sem er í leit að nýjum þjálfara er norska meistaraliðið Vipers Kristiansand.
Ekkert stress
Þórir segist ekki hafa þungar áhyggjur af atvinnuleysi næstu vikur og mánuði. Hugur sinn stefnir frekar burt frá þjálfun og fást við eitthvað annað um skeið. Hvað síðar kunni að gerast verði framtíðin að leiða í ljós.
Þórir þjálfaði norska kvennalandsliðið í 15 ár og var áður aðstoðarþjálfari og starfsmaður landsliðsins í 16 ár.