Franska handknattleiksliðið Montpellier staðfesti loks í morgun að Akureyringurinn Dagur Gautason hafi gengið til liðs við félagið frá ØIF Arendal í Noregi. Samningur Dags við franska stórliðið gildir til loka leiktíðarinnar í sumar. Möguleiki verður á að bæta ári við samninginn ef um semst þegar reynsla verður komin á samstarfið.
Dagur, sem leikur í vinstra horni, fer beint inn í aðalliðið til þess að leysa af sænska hornamanninn Lucas Pellas sem sleit hásin á æfingu um síðustu helgi.
Dagur hefur leikið undanfarið hálft annað ár með ØIF Arendal og gert það gott. Var hann m.a. valinn besti vinstri vinstri hornamaður norsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og skoraði 133 mörk. Þar áður lék Dagur með KA og einnig um tveggja ára skeið með Stjörnunni.
Stutt í fyrsta leik
Dagur, sem er 24 ára gamall, kom til Montpellier í fyrradag og fór í læknisskoðun í gærmorgun. Í framhaldinu tók hann þátt í æfingum enda er stutt í fyrsta leik Montpellier eftir HM-hléið. Montpellier tekur á móti grannliðinu PAUC-Aix í átta liða úrslitum frönsku bikarkeppninni á laugardaginn.
Sá þriðji
Tveir Íslendingar hafa leikið með Montpellier, annarssvegar Geir Sveinsson frá 1995 til 1997 og hinsvegar Ólafur Andrés Guðmundsson leiktíðina 2021 til 2022.
Montpellier vann Meistaradeild Evrópu 2003 og 2018 og er eitt af þremur stóru handboltaliðunum í Frakklandi ásamt PSG og Nantes. Lið Montpellier situr í þriðja sæti frönsku 1. deildarinnar þremur stigum á eftir PSG og Nantes þegar helmingur leikja deildarkeppninnar er að baki.
Var kallaður til Búdapest
Dagur var kallaður inn í landsliðshópinn EM 2022 í Búdapest þegar verulegur hluti leikmannahóps íslenska landsliðsins var í sóttkví vegna Covid. Ekki kom þó til þess að Dagur tæki þátt í mótinu þegar á hólminn var komið.