- Auglýsing -
Til stóð að HSÍ streymdi í gegnum youtube-síðu sína síðari vináttulandsleik Sviss og Íslands í handknattleik kvenna frá BBC Arena í Schaffhausen kl. 15 í dag. Þegar til átti að taka og allt var uppsett fyrir útsendingu lagði handknattleikssamband Sviss blátt bann við útsendingunni.
Svissneska handknattleikssambandið ætlar heldur ekki að senda leikinn út. Þar af leiðandi verður fátt og smátt að frétta frá leiknum meðan á honum stendur og engin ríkisleyndarmál leka þar af leiðandi út.
Um er að ræða síðasta leik beggja liða áður en flautað verður til leiks á Evrópumóti kvenna á fimmtudaginn. Fyrsti leikur íslenska liðsins verður á föstudaginn við Holland.
Leikir Íslands í F-riðli EM kvenna 2024:
29. nóvember: Ísland - Holland, kl. 17.
1. desember: Ísland - Úkraína, kl. 19.30.
3. desember: Ísland - Þýskaland, kl. 19.30.
- Handbolti.is verður vitanlega á EM, án ríkisaðstoðar, og fer utan með blaðamann og ljósmyndara sem fylgja landsliðinu eftir meðan það stendur í ströngu.
- Auglýsing -