„Framundan er krefjandi leikur, það er bara staðreyndin enda er andstæðingurinn með heimsklassa lið,“ segir Einar Jónsson þjálfari Íslands- og bikarmeistara Fram um væntanlega viðureign við portúgalska liðið FC Porto í Lambhagahöllinni í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 18.45 og er sá fyrsti hjá Fram-liðinu í Evrópudeildinni í handknattleik karla.
Miðasala leik Fram og FC Porto fer fram á stubb.is.
Í hörkuleik við Sporting
„Porto tapaði fyrir stuttu síðan með eins marks mun fyrir Sporting í hörkuleik í portúgölsku deildinni. Sporting leik í Meistaradeild Evrópu. Þannig að ljóst er að við eigum fyrir höndum erfiðan leik,“ sagði Einar sem vill hvetja alla handboltaunnendur til að mæta í Lambhagahöllina og styðja við bakið á Fram utan vallar sem innan enda um stórverkefni að ræða hjá íslensku félagsliðum að taka þátt í Evrópukeppni.
Evrópuævintýri Framara hefst heima í kvöld
Mosfellingurinn mætir
„Porto er með afar vel mannað lið, valinn mann í hverju rúmu. Best þekkjum við eflaust Mosfellinginn Þorstein Leó Gunnarsson,“ segir Einar og minnir á að stutt sé fyrir Mosfellinga í Lambhagahöllina á viðureignina.
Einar dregur ekki fjöður yfir að ekki hafi gengið sem best hjá Fram í síðustu leikjum í Olísdeildinni. Leikmannahópurinn hafi þynnst út vegna meiðsla sem hafi sett sitt strik í reikninginn. Þrátt fyrir að brattann sé að sækja hjá Fram þá sé enginn uppgjafartónn í leikmönnum.
Frábært verkefni
„Þátttaka í Evrópudeildinni er frábært verkefni sem getur kveikt í okkur og ný reynsla fyrir flesta okkar. Við höfum svolítið verið að bíða eftir að röðin komi að þessu leikjum. Nú er komið að okkur að gera eins vel og hægt er,“ segir Einar Jónsson þjálfari Fram.
Fyrsti Evrópuleikurinn
Mikið verður um dýrðir í kringum leikinn sem er sá fyrsti sem fram fer í Lambhagahöllinni í Úlfarsárdal. Dagskráin hefst snemma eftir því sem næst verður komist og því er tilvalið að mæta tímanlega á svæðið.
Auk Fram og Porto eiga Elverum frá Noregi og HC Kriens-Luzern frá Sviss sæti í D-riðli Evrópudeildarinnar.
Leikir Fram í riðlakeppni Evrópudeildar:
14. október: Fram - FC Porto, kl. 18.45.
21. október: Fram - Elverum, kl. 18.45.
11. nóvember: HC Kriens-Luzern - Fram, kl. 17.45
18. nóvember: Fram - HC Kriens-Luzern, kl. 19.45.
25. nóvember: FC Porto - Fram, kl. 19.45.
2. desember: Fram - Elverum, kl. 17.45.