Evrópumeistarar SC Magdeburg unnu í kvöld heimsmeistaramót félagsliða þriðja árið í röð. Magdeburg lagði Füchse Berlin, 34:32, í framlengdum úrslitum Dammam í Sádi Arabíu. Janus Daði Smárason var markahæstur hjá Magdeburg í leiknum með sjö mörk ásaamt Svíanum Albin Lagergren. M.a. skoraði Janus 34. og síðasta markið sem innsiglaði sigurinn í framlengingu.
Fyrr í dag tapaði Barlinek Industria Kielce með Hauk Þrastarson innanborðs fyrir Barcelona í leik um þriðja sæti mótsins, 33:30. Haukur skoraði þrjú mörk í leiknum.
Magdeburg var tveimur mörkum undir, 29:27, þegar skammt var til loka venjulegs leiktíma í úrslitaleiknum. Ómar Ingi Magnússon og Daniel Pettersson jöfnuðu metin með sitt hvoru markinu. Pettersson fékk tækifæri til þess að skora sigurmarkið þegar átta sekúndur voru til leiksloka en Dejan Milosavljev markvörður Füchse varði vítakast Svíans.
Ómar Ingi skoraði fjögur mörk og átti þrjár stoðsendingar. Janus Daði átti einnig þrjár stoðsendingar auk markanna sem sjö sem áður er getið.
Daninn Mathias Gidsel skoraði níu mörk fyrir Füchse Berlin og átti sjö stoðsendingar. Jerry Tollbring skoraði sjö mörk og var með 100% nýtingu.
Magdeburg fékk 400 þúsund dollara í verðlaunafé, jafnvirði tæpra 57 milljóna króna.
Úrvalslið mótsins: Markvörður: Dejan Milosavljev, Füchse Berlin. Hægra horn: Hans Lindberg, Füchse Berlin. Hægri skytta: Ómar Ingi Magnússon, SC Magdeburg. Miðjumaður: Janus Daði Smárason, SC Magdeburg. Vinstri skytta: Lasse Andersson, Füchse Berlin. Vinstra horn: Dylan Nahi, Kielce. Línumaður: Luis Frade, Barça. Maður mótsins: Mathias Gidsel, Füchse Berlin. Markahæstur: Mathias Gidsel, Füchse Berlin, 45 mörk.
Hér fyrir neðan er að finna stutta samantekt frá úrslitaleiknum.