Lasse Andersson, leikmaður danska landsliðsins og Þýskalandsmeistara Füchse Berlín, getur ekki tekið þátt í tveimur vináttuleikjum Danmerkur í undirbúningi liðsins fyrir Evrópumótið vegna meiðsla sem hann glímir nú við.
Andersson, sem er 31 árs vinstri skytta, reif magavöðva á dögunum og spilar því ekki gegn Noregi í kvöld né gegn Grikklandi á laugardag.
Fylgir eigin takti
„Planið er að ég fylgi svolítið eigin takti og auki álagið jafnt og þétt til þess að sjá hvernig vöðvinn bregst við. Á einhverjum tímapunkti þegar ég sný aftur reyni ég að taka frekari þátt í æfingum og sé hvernig þetta gengur,“ sagði Andersson í samtali við dönsku sjónvarpsstöðina TV2 Sport.
Skyttan hefur tvívegis orðið heimsmeistari með Danmörku og einu sinni orðið Ólympíumeistari. Danir stefna ótrauðir á að vinna sinn fyrsta Evrópumeistaratitil frá árinu 2012.
Heldur í bjartsýnina
Andersson kvaðst jafnframt bjartsýnn á að vera orðinn heill heilsu þegar Evrópumótið í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hefst eftir eina viku.
„Ég er ansi bjartsýnn. Ekki síst vegna þess að mér finnst ég verða stöðugt betri dag frá degi þegar ég læt reyna á vöðvann og reyni að gera meira og meira.“





